Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, hefur tilkynnt um framboð í fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu. Með því skorar hann á hólm þingmanninn Birgi Þórarinsson sem leiddi lista flokksins í Suðurkjördæmi fyrir síðustu kosningar og sækist áfram eftir fyrsta sætinu.
Karl Gauti var kjörinn á þing fyrir Flokk fólksins árið 2017 og var þá oddviti þess flokks í Suðurkjördæmi. Hann gekk til liðs við Miðflokkinn á kjörtímabilinu. Valið verður á lista Miðflokksins með uppstillingu á næstu vikum. Fimm manns skipa kjörnefnd, þrír voru kjörnir af kjördæmafundi og tveir af stjórn flokksins.
„Ég tel að ég hafi mjög góðan hljómgrunn í kjördæminu og ég er búinn að vera mikið á ferðinni í kjördæminu allt kjörtímabilið,“ segir Karl Gauti.