25 þúsund skammtar gefnir í vikunni

Fjöldi fólks bíður þess að fara í bólusetningu í Laugardalshöll.
Fjöldi fólks bíður þess að fara í bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stór bólusetningarvika er fram undan á höfuðborgarsvæðinu. Í dag verður bólusett með bóluefni Janssen, en skilaboð hafa verið send til þeirra sem býðst bólusetning í dag. Karlar fæddir 1981, 1994, 2001 og 2002 hafa fengið boð um bólusetningu í dag sem og konur fæddar 1976, 1979, 1993 og 1997. 

Eftir klukkan 14 í dag geta þeir, sem eiga eldra boð í bólusetningu með Janssen, fengið bólusetningu í Laugardalshöll á meðan birgðir endast. 

Þriðjudaginn 15. júní verður bólusett með bóluefni Pfizer. Um er að ræða seinni bólusetningu auk þess sem haldið verður áfram með bólusetningu aldurshópa. Karlar fæddir 1996 hafa fengið boð í bólusetningu á þriðjudag auk kvenna fæddra 1992. Þar að auki hafa krakkar fæddir árin 2003 og 2004 fengið boð í bólusetningu. 

Miðvikudaginn 16. júní verður bólusett með bóluefni Moderna. Karlar fæddir 1982 hafa þá fengið boð í bólusetningu en auk þess verða gefnar seinni bólusetningar. 

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í dag verða í vikunni gefnir 10 þúsund skammtar af Janssen, 10 þúsund skammtar af Pfizer og 5 þúsund skammtar af Moderna. 

Alls hafa rúmlega 317 þúsund skammtar bóluefnis vegna kórónuveirunnar verið gefnir hér á landi. Bólusetning er hafin hjá rúmlega 86 þúsund manns og tæplega 129 þúsund eru fullbólusettir. 

Komi ekki á fastandi maga 

„Við óskum eftir því að þeir, sem koma og eiga strikamerki fyrir þann dag sem þeir mæta, komi á tilsettum tíma, þeir sem ekki mættu þann dag sem þeir voru boðaðir geta mætt eftir kl. 14 til þess að ekki verði of langar biðraðir,“ sagði Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í samtali við Morgunblaðið í dag

Þá ítrekar Ragnheiður að ef biðraðir myndist megi fólk sem á erfitt með að ganga endilega láta vita af sér og verði reynt að kippa því fram fyrir. Í síðustu viku var stór Janssenbólusetningardagur á fimmtudeginum þar sem fjöldi fólk af yngri kynslóðinni streymdi inn í Laugardalshöll og fékk bóluefni eftir langa bið. Þá segir Ragnheiður að töluvert hafi verið um yfirlið þann dag. „Það er töluvert meira um yfirlið hjá yngri kynslóðinni, það var mjög sjaldgæft að það væri að líða yfir fólk af eldri kynslóðinni en þetta er algengt hjá yngri,“ sagði Ragnheiður. Þá hvetur hún alla sem mæta í bólusetningu til þess að borða og drekka áður en þeir mæta. „Ekki koma til okkar á fastandi maga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert