„Þetta er fyrsti leiðtogafundur Bidens [forseta Bandaríkjanna] hjá NATO. Það er líklega það sem athygli mun beinast að,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í samtali við mbl.is skömmu áður en hann hélt á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Hann segir skilaboð Joes Bidens hafa verið skýr um að sýna samstöðu, samvinnu og samtal við bandamenn sína í NATO. „Þessu hefur verið tekið mjög vel.“
Joe Biden, sem er í eins konar Evrópuferð, lauk nýverið við leiðtogafund G7-ríkjanna sem fór fram í Bretlandi. Guðlaugur segir að hann muni í framhaldi af leiðtogafundi NATO funda með mörgum þjóðarleiðtogum tvíhliða „og endar náttúrlega á fundi sem við eigum nokkuð í Íslendingar, það er að segja leiðtogafundur hans og Vladimírs Pútíns [forseta Rússlands] í Genf“.
Fyrir leiðtogafundinum liggur tillaga Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, til leiðtoganna sem miðar að því að styrkja Atlantshafstengslin og efla pólitískt samstarf til að bandalagið verði enn betur í stakk búið til að takast á við öryggisáskoranir nútíðar og framtíðar. Þá verður ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum lögð fyrir leiðtogana og ný netöryggisstefna.
Guðlaugur segir að verið sé að leggja áherslu á netöryggi. „Netöryggismál verða sífellt fyrirferðarmeiri. Það er mikil samstaða á meðal ríkja Atlantshafsbandalagsins um að taka á þeirri ógn og vinna saman að það.
Sömuleiðis eru menn líka farnir að ávarpa loftslagsmálin. Þau tengjast öryggis- og varnarmálum með beinum hætti, augljóslega,“ segir Guðlaugur Þór.
Hann segir sömuleiðis að sú staðreynd að í annað sinn verði fjallað um málefni Kína á vettvangi leiðtogafundar NATO segi okkur að það sé komið til að vera.
„Það er alveg ljóst að ekki er hægt að fjalla um stór málefni á alþjóðavettvangi, á borð við afvopnunarmál, án þess að taka Kína með í reikninginn. Þeir eru fyrirferðarmiklir og það mun ekki minnka,“ segir Guðlaugur Þór.