Katrín segir Biden koma sterkt inn í NATO

Katrín Jakobsdóttir að ganga inn á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í höfuðstöðvum …
Katrín Jakobsdóttir að ganga inn á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í höfuðstöðvum Brussel í dag. AFP

Katrín Jakobsdóttir segir leiðtogafund Atlantshafbandalagsins hafa gengið vel og marga hafa haft orð á því hversu ánægjulegt væri að geta komið saman í eigin persónu. 

Fundinum lauk rétt í þessu og náði mbl.is tali af Katrínu á leið sinni upp á hótel eftir fundinn. 

Hún segir að ný netöryggisstefna hafi verið samþykkt ásamt nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem og tillögur Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem miða  því að styrkja Atlantshafstengslin og efla pólitískt samstarf til að bandalagið verði enn betur í stakk búið til að takast á við öryggisáskoranir nútíðar og framtíðar.

„Já, þetta var samþykkt. Fyrir marga var þetta fyrsti fundurinn í raunheimum eftir Covid-19 og það var töluvert talað um það og töluverð gleði með að vera að hittast,“ segir Katrín.  

Hún segir öll hefðbundin mál hafa verið á dagskrá en einnig hafi nokkuð verið rætt um áætlanir bandalagsins um að breikka sitt verksvið með því að meðal annars að setja loftslagsmálin á dagskrá, fjalla um viðnámsþol aðildarríkjanna og tilvonandi fund Joes Bidens forseta Bandaríkjanna og Vladimírs Pútíns forseta Rússlands. 

Lagði áherslu á afvopnunarmál 

„Ég lagði auðvitað áherslu á afvopnunarmál í því samhengi,“ sagði Katrín um sitt innlegg á fundinum og bætti við „og fagnaði vilja nýs forseta Bandaríkjanna til að setja þau á dagskrá og hvatti hann til dáða í þeim efnum á komandi fundi“.

Katrín fjallaði sérstaklega um kynbundið ofbeldi, loftslagsmál ásamt afvopnunarmálum og lýðræðisgildi í innleggi sínu á leiðtogafundinum. 

Voru málefni Afganistans rædd á fundinum?

„Já, það voru ýmsir sem ræddu þá ákvörðun [að kalla herlið NATO heim frá Afganistan]. Það sem við getum tekið út úr því er að það er mikil samstaða um að styðja áfram við Afganistan. Til að mynda halda áfram opnum flugvelli þar.“

Finnur þú fyrir breyttum áherslum eftir að Joe Biden tók við forsetaembætti?

„Hann er að koma mjög sterkt inn í Atlantshafsbandalagið eftir undanfarin ár. Hann kom því mjög skýrt til skila að þetta skipti miklu máli fyrir Bandaríkin, þetta bandalag og samstarf við önnur vestræn ríki, þannig að það var mjög sterk innkoma getum við sagt.

Eins var mjög mikið rætt um mikilvægi þess að standa vörð um lýðræði og mannréttindi.“

Hitti Von der Leyen í fyrsta sinn

Katrín hitti Jenez Jansa, forsætisráðherra Slóveníu sem senn tekur við formennsku í Evrópuráðinu, tvíhliða í morgun. 

Þá hitti hún Kaju Kallas forsætisráðherra Eistlands, sem hún hafði ekki áður hitt frá því að hún tók við embætti forsætisráðherra. 

„Síðan átti ég núna, eftir fundinn, fund með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursulu von der Leyen. Ég hafði ekki hitt hana persónulega fyrr en núna, en við erum auðvitað búnar að vera í stöðugum samskiptum um bóluefnamál,“ segir Katrín og hlær.

Hún kveðst hafa bæði farið yfir bóluefnamál sem og aðra hagsmuni Íslands sem EFTA-ríkis og aðila að EES-samningnum í samskiptum við ESB. 

„Það skiptir máli að passa stöðugt upp á það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert