Umboðsmaður Alþingis hefur sent Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, bréf þar sem spurt er hvort hann sé meðvitaður um að afgreiðsla umsókna um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun hafi mögulega breyst.
Fyrirspurnin kemur til í kjölfar kvartana og ábendinga. Þær benda til að framkvæmdin gæti hafa breyst þannig að umsóknum, einkum frá ungu fólki, sé í auknum mæli synjað á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd, að því er kemur fram á vef umboðsmanns Alþingis.
Í bréfinu til ráðherrans eru nefnd dæmi um erindi sem umboðsmanni hafa borist þar sem bent hefur verið á að áður en Tryggingastofnun synji umsókn um örorkulífeyri, þar sem endurhæfing sé ekki fullreynd, hafi stofnunin ekki lagt mat á raunverulega möguleika umsækjanda á endurhæfingu.
Þetta sé niðurstaðan jafnvel þótt fyrir liggi álit sérfræðinga, þar á meðal lækna, um að frekari endurhæfing muni ekki skila árangri.
Umboðsmaður spyr hvort ráðherra telji tilefni til að bregðast við aðstæðunum sem lýst er í bréfinu og þá með hvaða hætti. Ef ekki, er óskað eftir skýringum á því, og svara er óskað eigi síðar en 28. júní.