„Við erum ekki alveg í stresskasti“

Bólusetning með Janssen bóluefni hefur gengið hratt og örugglega í …
Bólusetning með Janssen bóluefni hefur gengið hratt og örugglega í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 70 skammt­ar af bólu­efni Jans­sen voru eft­ir í Laug­ar­dals­höll rétt fyr­ir klukk­an fjög­ur. Öllum er vel­komið að mæta í höll­ina og þiggja skammt. „Það er einn og einn að koma í hús. Þetta er al­veg að haf­ast hjá okk­ur,“ seg­ir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, í sam­tali við mbl.is.

Tæp­lega 10 þúsund skammt­ar voru blandaðir í dag og renna síðustu út um fimm­leytið. „Við erum ekki al­veg í stresskasti en það væri gott að klára þetta,“ seg­ir Ragn­heiður. 

Yngri kyn­slóðin vill greini­lega sofa

Eng­ar lang­ar raðir mynduðust í dag líkt og í síðustu viku. „Við erum far­in að út­skýra það þannig að yngri kyn­slóðin vill greini­lega sofa,“ seg­ir Ragn­heiður. Fyrsta klukku­tím­ann í morg­un var mjög dræm þátt­taka og var þá tekið til þess ráðs að boða fleiri ár­ganga. Fljót­lega eft­ir há­degi var öll­um frjálst að mæta og seg­ir Ragn­heiður að sá hátt­ur verði einnig hafður á það sem eft­ir er vik­unn­ar. 

Gert er ráð fyr­ir að tæp­lega 40 þúsund ein­stak­ling­ar verði bólu­sett­ir hér á landi þessa vik­una með fjór­um teg­und­um bólu­efna. „Það er Pfizer-dag­ur á morg­un. Það er mjög vin­sælt efni og þá hugsa ég að það rjúki út,“ seg­ir Ragn­heiður.

Á morg­un verður bólu­sett með Pfizer líkt og Ragn­heiður seg­ir. Um seinni bólu­setn­ingu er að ræða að hluta og þá verður haldið áfram með handa­hófs ald­urs­hópa. Karl­ar 1996, kon­ur 1992 og 2001 og öll 2003 og 2004 hafa fengið boð og bólu­sett verður milli klukk­an 9 og 14.

Eft­ir klukk­an 14 geta þau komið sem eiga eldra boð í Pfizer bólu­efnið, meðan birgðir end­ast.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert