„Við erum ekki alveg í stresskasti“

Bólusetning með Janssen bóluefni hefur gengið hratt og örugglega í …
Bólusetning með Janssen bóluefni hefur gengið hratt og örugglega í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 70 skammtar af bóluefni Janssen voru eftir í Laugardalshöll rétt fyrir klukkan fjögur. Öllum er velkomið að mæta í höllina og þiggja skammt. „Það er einn og einn að koma í hús. Þetta er alveg að hafast hjá okkur,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, í sam­tali við mbl.is.

Tæplega 10 þúsund skammtar voru blandaðir í dag og renna síðustu út um fimmleytið. „Við erum ekki alveg í stresskasti en það væri gott að klára þetta,“ segir Ragnheiður. 

Yngri kynslóðin vill greinilega sofa

Engar langar raðir mynduðust í dag líkt og í síðustu viku. „Við erum farin að útskýra það þannig að yngri kynslóðin vill greinilega sofa,“ segir Ragnheiður. Fyrsta klukkutímann í morgun var mjög dræm þátttaka og var þá tekið til þess ráðs að boða fleiri árganga. Fljótlega eftir hádegi var öllum frjálst að mæta og segir Ragnheiður að sá háttur verði einnig hafður á það sem eftir er vikunnar. 

Gert er ráð fyrir að tæplega 40 þúsund einstaklingar verði bólusettir hér á landi þessa vikuna með fjórum tegundum bóluefna. „Það er Pfizer-dagur á morgun. Það er mjög vinsælt efni og þá hugsa ég að það rjúki út,“ segir Ragnheiður.

Á morgun verður bólusett með Pfizer líkt og Ragnheiður segir. Um seinni bólusetningu er að ræða að hluta og þá verður haldið áfram með handahófs aldurshópa. Karlar 1996, konur 1992 og 2001 og öll 2003 og 2004 hafa fengið boð og bólusett verður milli klukkan 9 og 14.

Eftir klukkan 14 geta þau komið sem eiga eldra boð í Pfizer bóluefnið, meðan birgðir endast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka