Haraldur Benediktsson, alþingismaður og núverandi oddviti sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, mun ekki þiggja annað sæti á lista flokksins, hafni hann í því í prófkjöri.
Frá þessu greinir bb.is.
Haraldur og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð sækjast bæði eftir að leiða lista flokksins í kjördæminu og fer prófkjör fram á morgun og á laugardaginn.
Í viðtali við Bæjarins bestu, héraðsmiðil á Vestfjörðum, segir hann:
„Ég hef setið sem oddviti listans og gegnt stöðu fyrsta þingmanns kjördæmisins.
Ég hef náð að stilla saman strengi allra þingmanna kjördæmisins til góðra verka.
Ég er reiðubúinn að gera það áfram. Feli flokksmenn öðrum það hlutverk er það skýr niðurstaða.
Það getur ekki verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu.“