Urður Egilsdóttir
„Við vitum ekki alveg hver þörfin verður fyrir þá sem eiga strikamerki en hafa ekki komið einhverra hluta vegna,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en í næstu viku ættu allir að vera komnir með boð í fyrstu bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu.
„Eftir klukkan 14 á þriðjudaginn er öllum boðið í Janssen bólusetningu og eftir klukkan 15 á miðvikudaginn í Pfizer,“ segir Ragnheiður og nefnir að verið sé að renna blint í sjóinn því ekki er vitað hversu mikill áhugi og þörf sé. „Við eigum alla vega einhverja skammta þarna eftir bæði í Janssen og Pfizer.“
Bólusett verður með Janssen á þriðjudaginn, Pfizer á miðvikudaginn og seinni AstraZeneca-bólusetning á fimmtudeginum. Ragnheiður segir að í vikunni þar á eftir verði um endurbólusetningu að ræða.