Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segir að mikil eftirsjá sé að Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins. Hún laut í lægra haldi fyrir Jóhanni Friðrik Friðrikssyni, forseta bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, í baráttunni um annað sæti í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi.
Úrslit voru kunngjörð nú síðdegis og hlaut Sigurður Ingi, formaður flokksins og ráðherra, mikinn stuðning í fyrsta sæti eins og búast mátti við.
„Það er auðvitað veruleg eftirsjá að Silju, sem hefur verið öflugur þingmaður. Þessi hópur sem bauð sig fram var um margt öflugt og frambærilegt fólk, sem hefði getað raðast með ýmsum hætti en engu að síður verið öflugur hópur frambjóðenda. Þetta varð niðurstaðan og, eins og ég segi, það er veruleg eftirsjá að henni úr þingmannahópnum, en um leið höfum við verið að fá til liðs við okkur í prófkjörum í vetur nýtt fólk og ekki síst fólk sem steig fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum.“
Það segir Sigurður að virðist skila frambjóðendum miklu fylgi, eins og hann nefnir í sambandi við Jóhann Friðrik. Sigurður segir hann hafa staðið sig vel í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og vinsældir þess vegna virðist fylgja honum í landspólitíkina.
Sigurður Ingi segir að framsóknarmenn verði að spýta í lófana vilji þeir komast að samningaborðinu við myndun næstu ríkisstjórnar. Fylgi Framsóknarflokksins mældist tæp 9% í síðustu könnun MMR og þar áður mældist flokkurinn með 12,5%, nánast það sama og hann hlaut í síðustu þingkosningum, 12,7%.
„Við þurfum að spýta verulega í lófana ef við ætlum að tryggja það að Framsókn verði sterk eftir kosningarnar 25. september,“ segir Sigurður, en bætir við að Framsóknarflokkurinn hafi náð „eftirtektarverðum árangri“ með störfum sínum í ríkisstjórn.
Spurður hvort hann sé vongóður um áframhaldandi setu í ríkisstjórn og hvort hann vilji þá helst sitja áfram sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist Sigurður jákvæður.
„Ég er nú svo bjartsýnn og hef fundið fyrir frekar miklum meðbyr upp á síðkastið þannig að við stefnum auðvitað hátt. Við getum alveg hugsað okkur að verða aftur leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum og stefnum að sjálfsögðu þangað.“
Aðspurður segist Sigurður Ingi ætla að fagna afgerandi sigri með því að bretta upp ermar og undirbúa komandi vinnuviku í ráðuneytinu, sem hefst á morgun.
„Kannski ég grilli einhverja steik ofan í konuna,“ segir hann þó eftir smá umhugsun.