Bólusettir með meira mótefnasvar

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við …
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Að sögn Magnúsar Gottfreðssonar, sérfræðings í smitsjúkdómum á Landspítalanum og prófessors við Háskóla Íslands, hefur langvarandi vörn gegn endursýkingu af Covid-19 verið rannsökuð töluvert hér á landi. Fyrstu niðurstöður rannsóknar voru birtar í New England Journal of Medicine í október síðastliðið haust og er sú rannsókn enn í gangi. Rannsóknin byggðist á mótefnamælingum hjá 30.576 einstaklingum á Íslandi.

„Þær niðurstöður sýndu að mótefnasvarið var almennt séð mjög gott og virtist vera meira langvarandi en fólk hafði áhyggjur af í byrjun. Síðan mun tíminn leiða í ljós hversu löng vörnin er,“ segir Magnús og bætir við:

„Það er náttúrlega bara eitt og hálft ár síðan fyrstu sjúklingarnir smituðust þannig að það tekur auðvitað tíma að átta sig á því hvernig þetta þróast.“

Kröftugra mótefnasvar hjá bólusettum

Magnús segir þó að mótefnasvarið gegn broddprótíninu virðist vera kröftugra hjá þeim sem eru bólusettir heldur en hjá þeim sem hafi fengið náttúrulega sýkingu.

„Það er ástæðan fyrir því að menn eru að mæla með svona örvunarskammti af bóluefninu eftir að fólk hefur fengið Covid,“ segir Magnús og bendir á að í raun og veru sé það kannski ekki fyllilega ljóst hver mótefnavörnin verði eftir lengri tíma.

„Það náttúrlega skiptir líka máli að við náttúrulega sýkingu myndar líkaminn mótefni gegn fleiri þáttum veirunnar, ekki bara gegn broddprótíninu þannig að það verður svokallað samsett mótefnasvar, alls konar mótefni sem myndast,“ segir Magnús og bendir á að það sé kannski ekki alveg hægt að stilla þessu upp og mæla magn mótefna gegn broddprótíninu annars vegar eftir náttúrlega sýkingu og hins vegar eftir bólusetningu. „Þetta er aðeins flóknara en það.“

Þá segir Magnús að bólusetning þeirra sem hafi sýkst af Covid sé að hans mati skynsamleg varúðarráðstöfun og bætir við: „Svo kemur í ljós hversu miklu það breytir að gefa fólki aftur bóluefni eftir að það hefur fengið Covid.“

Bólusett með Janssen og Pfizer

Á vefsíðu embættis landlæknis segir að komið sé að því að bjóða þeim sem hafa sögu um Covid eða mótefni gegn SARS-CoV-2 bólusetningu til að efla vörn gegn endursýkingu. Bólusett verður með bóluefnunum Janssen og Pfizer.

Þá segir að mælt sé með því, ef innan við þrír mánuðir eru frá staðfestri Covid-sýkingu, að beðið verði með bólusetninguna þar til að þeim tíma liðnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka