Fjölmiðlafólki ógnað í starfi sínu

Ógnanir og hótanir í garð fjölmiðlafólks eru algengar hér á …
Ógnanir og hótanir í garð fjölmiðlafólks eru algengar hér á landi. Ljósmynd/mbl.is

Tæpum helmingi íslenskra blaðamanna hefur verið hótað eða ógnað í starfi sínu. Þetta kemur fram í grein Birgis Guðmundssonar sem birt var í nýjasta tölublaði Blaðamannsins, félagstíðinda Blaðamannafélags Íslands.

Greinin ber yfirskriftina „Ógnir gegn fjölmiðlafólki heima og heiman“ og er byggð á frumniðurstöðum alþjóðlega rannsóknarverkefnisins Worlds of Journalism Study eða WJS. Eitt af því sem var til skoðunar í rannsókninni voru öryggismál og stefna rannsakendur að því að bera saman stöðu öryggismála í hinum ýmsu löndum heimsins.

Í greininni segir Birgir frá ítarlegri könnun sem rannsóknarhópur lagði nýlega fyrir íslenska blaða- og fréttamenn, þar sem meðal annars var spurt um hvers kyns ógnir sem steðja að íslensku fjölmiðlafólki. Frumniðurstöður hvað þessar ógnir varðar voru svo birtar í nýjasta tölublaði Blaðamannsins, félagstíðinda Blaðamannafélags Íslands.

Hér fyrir neðan má sjá töflu sem sýnir eina af þeim spurningum sem lagðar voru fyrir í könnuninni. Spurningin er í fimmtán liðum og beinir sjónum að ýmiss konar ógnum.

Hér má sjá frumniðurstöður úr nokkrum spurningum úr WJS-könnuninni sem …
Hér má sjá frumniðurstöður úr nokkrum spurningum úr WJS-könnuninni sem framkvæmd var á dögunum meðal íslenskra blaða- og fréttamanna. Graf/WJS

Birgir segir það athyglisvert hve algengir einstaka liðir virðast vera á Íslandi.

„Þannig segir aðeins rétt liðlega helmingur, eða 53% svarenda, að þeim hafi aldrei verið ógnað eða hótað, sem þýðir að mjög mörgum hefur verið ógnað eða hótað, en um 40% segja að það hafi gerst sjaldan eða stundum og 7% oft eða mjög oft. Svipaða sögu er að segja um það að siðferði blaðamanna hafi verið dregið í efa, en um 60% blaðamanna hafa upplifað slíkt einhvern tíma,“ segir hann í greininni.

Þá segir hann það hafa komið sér á óvart hversu algengt ofbeldi á borð við dreifingu á persónuupplýsingum fólks er og eins það að fólki sé beitt þvingunum í orðum eða gerðum.

„Rétt er að hafa í huga að þær prósentur sem hér er miðað við eru reiknaðar af heildarsvörum 248 svarenda, þannig að það að 13% hafi verið lögsótt í starfi síðustu fimm ár þýðir í raun 32 einstaklingar. Eins þýðir það að 12% hafi verið beitt kynferðislegri áreitni/ofbeldi að um er að ræða um 30 einstaklinga, og þar af er mikill meirihluti konur,“ segir Birgir um niðurstöðurnar.

Að sögn Birgis benda þessar frumniðurstöður úr WJS-könnuninni ótvírætt til þess að ástandið í öryggismálum blaðamanna á Íslandi sé í eðli sínu ekki mikið frábrugðið því sem gerist í öðrum löndum. Þó telur hann fulla ástæðu til að horfa til þess hvernig fjölmiðlafólk í nágrannalöndunum bregst við og meta þau viðbrögð og draga af þeim lærdóm sem á hugsanlega erindi á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert