Fjöldi alvarlegra aukaverkana á hvert bóluefni

Lyfjastofnun hefur hvatt fólk til að tilkynna um alvarlegar aukaverkanir …
Lyfjastofnun hefur hvatt fólk til að tilkynna um alvarlegar aukaverkanir vegna bólusetninga en orsakatengsl eru ekki staðfest. AFP

120 tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun vegna gruns um alvarlega aukaverkun í kjölfar bólusetninga við Covid-19. Flestar tilkynningar um dauðsföll voru vegna Pfizer og flestar tilkynningar um sjúkrahúsvistun voru vegna AstraZeneca.

Orsakasambönd hafa þó ekki verið staðfest svo fjöldi tilkynninga vegna gruns segir ekki til um tíðni raunverulegra aukaverkana. 

Söfnun þessara upplýsinga er gerð í þeim tilgangi að fylgjast með öryggi lyfja eftir notkun þeirra og koma auga á mögulegar aukaverkanir sem eru svo rannsakaðar betur. Í fylgiseðlum bóluefnanna í sérlyfjaskrá má sjá þekktar aukaverkanir þeirra.

Lyfjastofnun hefur hvatt alla, jafnt heilbrigðisstarfsfólk, einstaklinga og aðstandendur, til að tilkynna grun um aukaverkun eftir bólusetningu. Á vef stofnunarinnar eru upplýsingar uppfærðar daglega.

Búið er að sundurliða tilkynningarnar eftir bóluefnum.

Tilkynningar vegna Pfizer voru 55 talsins.
Tilkynningar vegna Pfizer voru 55 talsins. AFP

55 tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir bárust vegna Pfizer frá BioNTech. Þar af var 21 vegna andláts. Öll andlátin vörðuðu aldraða einstaklinga eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Alls 23 tilkynningar vörðuðu sjúkrahúsvist og þar af voru 5 í lífshættulegu ástandi. Aðrar aukaverkanir sem töldust klínískt mikilvægar voru 11 talsins. Hér er átt við ýmis einkenni á borð við blóðtappa. 

Þess ber að geta að flestar tilkynningarnar um andlát bárust í janúar 2021, þegar elsti og hrumasti hópurinn var bólusettur hérlendis. Landlæknir hefur birt niðurstöður úr sérstakri rannsókn sem var gerð í kjölfar þessara tilkynninga. Samkvæmt henni er ekkert sem bendir til orsakasamhengis milli andláta og bólusetninga.

Vegna Moderna bárust 13 tilkynningar.
Vegna Moderna bárust 13 tilkynningar. AFP

Moderna-bóluefnið var tilkynnt 13 sinnum. Þar af lutu 11 tilkynningar að tilfellum sem vörðuðu sjúkrahúsvist, þar af var einn í lífshættulegu ástandi. Ein tilkynning varðaði svo lífshættulegt ástand þar sem ekki kom til sjúkrahúsvistar og ein tilkynning taldist klínískt mikilvæg. 

AstraZeneca tilkynningar voru 49 talsins.
AstraZeneca tilkynningar voru 49 talsins. AFP

Vegna AstraZeneca-bóluefnisins bárust Lyfjastofnun alls 49 alvarlegar tilkynningar. Fjórar þeirra vörðuðu andlát og voru þrír einstaklingar af fjórum með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma. Þá voru nokkuð margar tilkynningar um sjúkrahúsvist, eða 37 talsins og þar af 12 í lífshættulegu ástandi. Tilkynningar sem teljast klínískt mikilvægar voru sjö talsins og ein tilkynning varðaði tímabundna lömun í útlim ásamt öðrum tímabundnum einkennum.

Janssen hefur verið tilkynnt þrisvar sinnum.
Janssen hefur verið tilkynnt þrisvar sinnum. AFP

Aðeins hafa borist þrjár alvarlegar tilkynningar vegna Janssen-bóluefnisins og voru þær allar tengdar sjúkrahúsvist. Eitt tilvik var lífshættulegt. 

Lyfjastofnun hefur sett tvo fyrirvara við ofangreindar upplýsingar. Hún biður fólk að skoða þær í samhengi við fjölda þeirra sem bólusettir hafa verið. Einnig vekur hún athygli á því að beinn samanburður milli bóluefnanna sé ekki marktækur þar sem mismunandi hópar hafi verið bólusettir með mismunandi bóluefnum enda bárust þau á mismunandi tímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert