„Þegar þeir áttfölduðu sektina þá hugsaði maður; nú hættir þetta, en það virðist alls ekki vera raunin,“ segir mótorhjólamaður sem mbl.is talaði við varðandi tvö atvik sem hann lenti í á milli Selfoss og Hvolsvallar þar sem hefðu getað orðið mjög alvarleg slys vegna notkunar farsíma undir stýri.
Maðurinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, ók á bifhjóli á milli Selfoss og Hvolsvallar í gærkvöldi í lítilli umferð að hans sögn.
„Ég var að keyra á minni akrein þegar bíll kemur á móti mér á mínum vegarhelmingi. Ég sá að ökumaðurinn vissi ekki af mér svo ég hægði á mér og náði að sveigja mér snögglega frá. Ég kom þannig í veg fyrir að hún keyrði á mig,“ en maðurinn segir að um unga konu hafi verið að ræða sem hafi verið með símann í kjöltunni og ekki litið upp. „Ég held að hún hafi ekki einu sinni tekið eftir þessu.“
Um tíu mínútum síðar er bíll fyrir framan manninn sem keyrt er óeðlilega hægt. „Bíllinn var örugglega 20 kílómetrum undir hámarkshraða og ég geri mig því kláran að taka fram úr. Þegar ég sveigi yfir á vinstri þá sveigir bíllinn á sama tíma í sömu átt. Fyrsta hugsunin var hvort ökumaðurinn hafi viljandi verið fyrir mér. Ég tók þá eftir að þar var önnur ung kona með símann í kjöltunni,“ segir maðurinn og bætir við að konan hafi hvorki litið upp né séð hann.
Maðurinn segir að konan hafi haldið áfram svigakstri og mótorhjólamaðurinn þá tekið eftir vörubíl sem kom á móti þeim. „Ég gef því í og keyri að vinstri hlið bílsins og baða höndum til hennar, þá fæ ég loksins athygli ökumannsins.
Í fyrra tilfellinu, ef ég hefði ekki haft fulla athygli og viðbrögðin verið góð, þá hefði ég ábyggilega fengið þann bíl framan á mig og líklega ekki lent í seinna tilfellinu. Í því tilfelli hefði ökumaðurinn lent framan á vörubílnum ef ég hefði ekki bankað á rúðuna hjá henni.“
Maðurinn segir að það sé hans tilfinning að þó að sekt fyrir notkun farsíma í akstri hafi hækkað úr 5.000 krónum 40.000 hafi það litlu breytt. „Ég fór að velta fyrir mér hvað sektin þyrfti að vera há til þess að hún kæmi í veg fyrir að fólk væri í símanum. Því fór ég að velta því fyrir mér hvort það þyrfti ekki að afgreiða þetta á sama máta og ölvunarakstur. Ég held að þetta sé alveg jafnhættulegt.“