Stjórnmálin ekki leidd af skynsemi nú til dags

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir húsnæðisvandann liggja í skorti á lóðum. Einnig telur hann að horfast þurfi í augu við raunverulegan kostnað öldrunarþjónustu og einkavæðing þar væri ekki neikvæð þróun. Of margir neikvæðir hvatar eru í skattkerfinu að hans mati og þá hvetur hann verkalýðshreyfinguna til að einbeita sér að grundvallarverkefnum.

ASÍ stendur fyrir samtali við formenn þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða sig fram til Alþingiskosninga í haust þar sem Drífa Snædal tekur á móti þeim og spyr út í stefnu þeirra í málum sem varða verkalýðshreyfinguna.

Sigmundur og Drífa ræddu skynsemishyggjuna, húsnæðismálin, einkavæðingu á rekstri öldrunarheimila og skattkerfið. 

Skortur á skynsemi

Miðflokksmenn nota orðið skynsemishyggja mikið í stefnumálum sínum. Sigmundur segir skynsemishyggju vera að leita lausna óháð pólitískum kennisetningum. Leita þurfi lausna sem virka best hverju sinni og treysta lýðræðinu. Honum þykir skorta að stjórnmál séu leidd af skynsemi nú til dags. 

„Það skiptir ekki lengur máli hvað menn kjósa, þeir fá alltaf sambærilega stjórn,“ sagði hann og bætti við að stjórnmálamenn yrðu að þora að segja umdeilda hluti.

Fleiri lóðir lausnin

Hvað varðar húsnæðismál telur Sigmundur að vandinn liggi í skipulagsmálunum. Sveitarfélögin séu ekki að standa sig í að útvega lóðir og því sé framboðið of lítið. Hann telur að ef markaðsöflum sé settur ákveðinn rammi og skipulagsmál bætt geti þau hjálpað til við að færa húsnæðismarkaðinn til fólksins. 

Sigmundur bendir á að of margir komist ekki í gegnum greiðslumat, fái ekki lán og festist því á leigumarkaði þar sem þeir eru jafnvel að borga meira en þeir væru að gera af láni, hefði þeim verið veitt slíkt. Hann nefnir þá sérstaklega ungt fólk í þessu samhengi: „Tekjur ungs fólks segja ekki alla söguna um framtíðartekjur.“

Vandinn ekki einkavæðingin

ASÍ hefur haft áhyggjur af þeim áformum að hleypa markaðsöflunum inn í öldrunarþjónustu. Sigmundur telur að vandinn í öldrunarþjónustu sé ekki afleiðing þess að sjálfstæð félög hafi komið að rekstri. 

„Það þarf að horfast í augu við hvað þetta er dýrt,“ sagði Sigmundur en honum þykir ríkið hafa staðið illa að samningum við þessa aðila og ríkisstjórnin hafi sýnt samtökum sem unnið hafa hugsjónarstarf á sviði heilbrigðisþjónustu, óvirðingu. Samþjöppunarstefnan í heilbrigðisgeiranum er ekki vænleg til árangurs að mati Sigmundar.

Of margir neikvæðir hvatar

Sigmundi þykir skattkerfið á Íslandi innihalda of mikið af neikvæðum hvötum. Þótt skattkerfið sé jöfnunartæki þurfi það líka að vera hvetjandi til vinnu og verðmætasköpunar. Hann telur að ungu fólki sé refsað óhóflega fyrir meiri vinnu, en tryggja þurfi öllum viðunandi afkomu án þess að slíkt komi í veg fyrir möguleika fólks að auka tekjurnar og vinna sig upp. 

Tillaga til verkalýðshreyfingarinnar

Drífa spurði Sigmund að lokum hvort verkalýðshreyfingin gæti treyst því að eiga sér málsvara innan Miðflokksins. „Það eru margir í mínum flokki sem hafa verið virkir í verkalýðshreyfingunni og gegnt jafnvel forystuembættum árum saman. Ég hef notið leiðsagnar þeirra,“ svaraði hann. 

Sigmundur hvetur verkalýðshreyfinguna þó til að einbeita sér að grundvallarverkefnum eins og kjarabótum, frekar en hlutum á borð við loftslagsmál. Drífa skaut þá inn í að ekkert tengt lífskjörum fólks væri verkalýðshreyfingunni óviðkomandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert