Vonar að aldrei þurfi að herða aðgerðir aftur

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað inn minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vegna áframhaldandi sóttvarnaaðgerða innanlands.

Hann vill, sem fyrr, ekkert tjá sig um innihald minnisblaðsins fyrr en það hefur verið tekið til efnislegrar meðferðar ríkisstjórnarinnar. Þar að auki segist Þórólfur hafa sent ráðherra minnisblað er lýtur að landamærum Íslands.

Þetta segir hann í samtali við mbl.is. 

Þar að auki segist hann vona að við Íslendingar séum komnir á þann stað að aldrei þurfi aftur að herða aðgerðir hér innanlands, jafnvel þótt smit leki í gegnum landamærin. Þann 1. júlí næstkomandi verður aðgerðum breytt á landamærum Íslands og bólusettir ferðamenn verða ekki skimaðir lengur. 

„Ég vona að við séum komin á þann stað [að þurfa aldrei framar að herða innanlands]. Við getum átt von á því að það komi svona einstaka sýkingar hér innanlands, það á ekki að koma okkur í opna skjöldu, bara vegna þess að það er fólk hérna sem er ekki bólusett þótt það hafi tekist að bólusetja meginþorra þjóðarinnar og stóran hlut þeirra sem við ætluðum okkur að bólusetja. En bólusetningin er ekki 100% og þótt hjá sumum komi hún ekki í veg fyrir smit, þá er hún mjög góð í að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af veikindunum.“

Ekki forgangsverkefni að bólusetja börn

Bólusetning barna á aldrinum 12-15 ára með undirliggjandi sjúkdóma er hafin, þótt Þórólfur geti ekki sagt til um nákvæmlega hversu vel á veg hún er komin. Hann segir enn ekki búið að ákveða hvort öll börn á þessum aldri verði bólusett. Bóluefni Pfizer hefur verið samþykkt fyrir þennan aldurshóp. 

„Það hefur ekki verið ákveðið nei, og við erum bara enn þá að sjá hvernig landið er í því. Ég tel að það sé kannski ekki forgangsverkefni, þó að það sé svona út frá faraldsfræðilegum sjónarmiðum og út frá möguleika á smitum, þá geta menn alveg séð ávinning í að gera það. En ég tel að það sé ekki alveg forgangsverkefni, ég tel að við viljum frekar vernda þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.“

En það er sem sagt alveg skýr vilji ykkar að gera þetta, en það verður bara að skoða hvernig þetta verður gert?

„Það er enginn skýr vilji, við erum bara að skoða það. Ég held að það sé nú ekkert hægt að orða það þannig að það sé einhver skýr vilji. Við erum bara að skoða hvort það sé ákjósanlegt. Við erum líka bara að skoða hvað þjóðirnar í kringum okkur ætla að gera, það er svona upp og ofan hvað menn ætla að gera. Danir ætla að bólusetja börn en aðrir eru ekki búnir að taka ákvörðun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka