Karítas Ríkharðsdóttir
Haraldur Benediktsson, þingmaður og fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að slá til að þiggja annað sæti á lista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar.
Þetta kemur fram í Skessuhorni.
Haraldur leiddi áður listann en hafnaði í örðu sæti prófkjörs sem fram fór um síðustu helgi. Hann hafði áður tjáð sig í viðtali við Bæjarins besta um að ekki gæti talist heillavænlegt að fyrir nýjan oddvita, þá Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur Reykfjörð varaformann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, að hafa gamlan oddvita í aftursætinu, færi svo að hann myndi ekki sigra oddvitaslaginn.
Voru orð Haraldar túlkuð á þann veg að hann hygðist ekki þiggja annað sæti félli það honum í skaut í prófkjöri. Svo fór en Haraldur sagði í samtali við mbl.is að snúið hafði verið út úr orðum sínum og hann lægi undir feldi.
Nú hefur Haraldur staðfest að hann muni þiggja sætið vegna fjölda áskoranna.
„Ég hef á síðustu dögum meðtekið gríðarlegan fjölda áskorana um að þiggja annað sætið á listanum. Þar eiga í hlut bæði dyggir stuðningsmenn mínir í gegnum tíðina og einnig óflokksbundið fólk sem annt er um stöðu landsbyggðarinnar.
Ég get því ekki litið framhjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt virðist ennþá vera eftirspurn eftir störfum mínum á þingi. Ég get því upplýst að ég lýsi mig tilbúinn í framboðsslaginn,“ segir Haraldur samtali við Skessuhorn.