258.120 Íslendingar hafa fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu gegn kórónuveirunni, eða tæplega 88 prósent landsmanna. Þar af hafa 174.732 fengið fulla bólusetningu.
Ísland hefur því skipað sér meðal fremstu þjóða í alþjóðlegu samhengi. Ef miðað er við fjölda þeirra sem hafa fengið að minnsta kosti einn skammt bóluefnis per 360 þúsund íbúa trónir Ísland á toppnum. Næst á eftir koma Malta, Kanada, Bretland og Ísrael.
Fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu að í ljósi mikils vilja til þátttöku og góðs skipulags á framkvæmd bólusetningar verði að teljast sennilegt að Ísland sé nú þegar komið með betri samfélagslega vörn gegn Covid-19 en flest samanburðarlönd séu líkleg til að ná.
Bólusetningar gegn Covid-19 hófust hér á landi í lok desember á síðasta ári. Bólusett var eftir forgangsröðun og voru elstu aldurshópar, framlínuhópar og hópar með undirliggjandi sjúkdóma bólusettir á fyrsta fjórðungi árins. Á öðrum fjórðungi var bólusetningu þessa hópa lokið og yngra fólk bólusett.