Dagur gleði og gæfu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er að vonum ánægður með afléttingu allra takmarkana innanlands sem tóku gildi á miðnætti. Hann á sjálfur afmæli í dag og eyðir deginum í Vestmannaeyjum þar sem Orkumótið í fótbolta fer fram um helgina. 

„Á afmæli mínu í dag hefði ég vart getað óskað mér betri tíðinda en þeirra sem við getum nú notið. Við stóðum saman, við Íslendingar. Við treystum á mátt vísinda og þekkingar, við sýndum hvað í okkur býr þegar á reyndi. Höldum áfram vöku okkar og þá mun allt fara vel,“ skrifar Guðni í færslu á Facebook. 

Guðni varaði við því að faraldurinn geisar áfram víða um heim og að hér á landi þurfi landsmenn að hafa varann á.

„Engu að síður megum við hér heima fagna okkar merku tímamótum. Ég hugsa hlýtt til þeirra sem misst hafa ástvini vegna vágestsins, auk þeirra sem veikst hafa af völdum hans. Og ég hugsa með djúpu þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum í heimsfaraldrinum, í þágu alls samfélagsins,“ skrifar forsetinn. 

Þá vonar Guðni að leit að bandarískum ferðamanni sem týndist við gosstöðvarnar í Geldingadölum skili árangri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert