Hin kurteisa þjóð, Íslendingar

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eggert Jóhannesson

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, er starfsfólki, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og þjóðinni allri þakklát fyrir framgöngu sína í stærsta bólusetningarverkefni Íslandssögunnar sem gengið hafi ótrúlega vel. Fólk hafi upp til hópa jákvæðni og kurteisi að leiðarljósi

„Það kemur einn og einn neikvæður póstur en langflestir sem hafa samband eru jákvæðir og þakklátir. Og við erum að tala um einhverja 200 pósta sem berast mér á hverjum einasta degi. Sumir biðjast líka afsökunar á því að hafa samband, þar sem mikið sé hjá mér að gera. Þannig að kurteisi er lykilorðið – gegnum verkefnið allt,“ segir hún. 

– Okkur er stundum lýst sem hálfgerðum þursum en Íslendingar kunna sig þá sumsé þegar virkilega á reynir?

„Já, það er óhætt að segja það.“

Hún hlær.

„Fólk finnur líka að allir eru að reyna að gera sitt besta og það skiptir alltaf máli. Þríeykið sló tóninn í því sambandi – fékk þjóðina strax með sér. Þau hafa gert rosalega vel gegnum allan faraldurinn. Undir miklu álagi. Eins stjórnvöld sem höfðu hugrekki til að treysta fagmönnunum og styðja með ráðum og dáð við bakið á þeim. Það var mikið gæfuspor en alls ekki sjálfgefið og fróðlegt verður að sjá hvað gerist í kosningunum í haust þegar ríkisstjórnin leggur verk sín í dóm kjósenda.“

„Súperteymið“ í Laugardalshöllinni, eins og Ragnheiður Ósk kallar það. Frá …
„Súperteymið“ í Laugardalshöllinni, eins og Ragnheiður Ósk kallar það. Frá vinstri: Ewa Paluchowska, sér um bólusetningarvagnana, Kristján Helgi Þráinsson, stýrir lögreglunni, Ragnheiður Ósk, Jón Gauti Jónsson, hefur umsjón með skönnun og kerfi, Jórlaug Heimisdóttir, stýrir hjúkrunarfræðingunum, Anna Bryndís Blöndal lyfjafræðingur, hefur umsjón með bóluefninu, Brynjar Þór Friðriksson, stýrir sjúkraflutningamönnunum. Á myndina vantar blöndunarteymið sem er á Suðurlandsbrautinni, þær Margréti Héðinsdóttur og Ingibjörgu Rós Kjartansdóttur. Eggert Jóhannesson


Frábært starfsfólk

– Hvað stendur upp úr þegar þú horfir um öxl yfir verkefni síðustu mánaða?

„Frábært starfsfólk, fyrst og fremst. Sjö til tíu manna teymi hefur borið hitann og þungann af skipulagningunni og unnið sem einn maður. Það skiptir öllu máli að vera samstíga í svona verkefnum. Við hefðum ekki getað verið heppnari með verkefnastjóra, hvort sem við erum að tala um blöndun efnanna á Suðurlandsbrautinni, bólusetninguna sjálfa í Höllinni eða skipulagninguna í kring. Við höfum tekið þetta skref fyrir skref og metið stöðuna á hverjum tíma. Heilbrigðiskerfið hefur svo sannarlega sýnt og sannað ágæti sitt í þessum faraldri. Innviðirnir eru frábærir, sveigjanleikinn mikill og starfsfólkið brettir upp ermar þegar á þarf að halda.“

Þannig hafa til dæmis ófáir lífeyrisþegar og menntað heilbrigðisfólk sem vinnur önnur störf lagst á árarnar með heilsugæslunni. „Stofnanir og einkafyrirtæki hafa verið mjög liðleg að leyfa sínu fólki að leggja okkur tímabundið lið. Bakvarðasveitin okkar telur í dag 160 manns og munar um minna. Heilsugæslan hefði aldrei getað þetta ein síns liðs og það hefur verið frábært að verða vitni að þessari samstöðu. Hvatinn er líka nánast áþreifanlegur – að klára Covid-19.“

Leiðtogi sem hlustar á fólk

Sjálf lýsir Ragnheiður Ósk sér sem liðsmanni. „Þótt ég sé að fronta þetta verkefni og sé á einhvern hátt sögumaðurinn fer því fjarri að ég sé að stýra öllu og ráði öllu sjálf. Þvert á móti er ég leiðtogi sem hlustar á sitt fólk og segir: Góð hugmynd! Hvað ætli ég hafi sagt það oft á dag undanfarna mánuði? Ég treysti mínu fólki mjög vel. Margrét Héðinsdóttir, verkefnastjóri hér hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, er gott dæmi um manneskju sem fær frábærar hugmyndir. Allt flæði er innbyggt í Margréti sem þess utan er algjör jarðýta. Ég gæti nefnt marga fleiri. Við aðstæður sem þessar veitir ekki af frjórri og skapandi hugsun og hlutverk leiðtogans er að hvetja sitt lið og tengja það saman.“

Ítarlega er rætt við Ragnheiði Ósk í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert