Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, biðlar til foreldra að bíða með að bóka bólusetningu gegn Covid-19 fyrir börn á aldrinum 12 til 15 ára og leyfa þeim að njóta vafans. Hún segir að enn sé verið að fylgjast með nýjum rannsóknum á bólusetningu barna.
Börn á þessum aldri verða ekki boðuð í bólusetningu heldur geta foreldrar pantað fyrir þau tíma í bólusetningu.
„Allir árgangar hafa hingað til verið boðaðir í bólusetningu en núna er þessu snúið við. Foreldrar átta sig kannski ekki alveg á því að það er vegna þess að sóttvarnalæknir vill bíða og sjá betur niðurstöður rannsóknir á þessum hópi. Foreldrar eru meira bara að hafa beint samband án þess að spá meira í það vegna þess að það er búin að vera mikil bólusetningarmenning,“ segir Ragnheiður.
Hún bendir á að börn verði hvort sem er ekki bólusett fyrr en eftir sumarfrí og því er í raun ástæðulaust fyrir foreldra að panta bólusetningu í flýti. Ef sóttvarnalæknir ákveður að boða börn í bólusetningu verður það gert í gegnum skólaheilsugæsluna.
„Við biðjum fólk um að bíða með okkur og sjá hvað kemur út úr þessum rannsóknum, leyfum börnunum að njóta vafans,“ segir Ragnheiður.