„Það er varla til borg í heiminum þar sem þetta vandamál er ekki til staðar en ef við ætlum að gera Reykjavík að heimsklassa hjólaborg þá verðum við að finna leiðir til að draga úr þessum þjófnaði.“
Þetta segir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, í Morgunblaðinu í dag. Hann lýsti því yfir á Facebook að borgin hygðist takast á við stuld hjóla í nýrri hjólreiðastefnu. Málið hefur verið til skoðunar í ákveðinn tíma en Pawel kveðst enn ekki meðvitaður um neinar auðveldar lausnir á því.
Leggur hann áherslu á að mikilvægt sé að hafa sem flesta með í ráðum. „Ég hygg að það þurfi samstarf tryggingafyrirtækja, hjólreiðaverslana, lögreglu, íbúa og fleiri aðila, til þess að reyna að draga úr þjófnuðunum.“
Yfirlýsing Pawels birtist á Facebook-síðunni Hjóladót Tapað, fundið eða stolið. Sú síða hefur vakið athygli fyrir framtak Bjartmars Leóssonar, sem einnig er þekktur sem hjólahvíslarinn, en hann hefur tekið að sér að finna stolin reiðhjól fyrir fólk. Hefur hann endurheimt fjöldann allan af reiðhjólum um borgina og mælir með að fólk noti góða lása á hjólin.