Fleiri mættu í bólusetningu en von var á

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eggert Jóhannesson

Vel gekk að bólusetja í dag með seinni skammti af AstraZeneca-bóluefninu segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Þetta gekk mjög vel. Það komu mjög margir og fleiri en við áttum von á, en við bólusettum alla,“ segir Ragnheiður.

12.611 manns voru bólusettir í dag. Mikil stemning var í höllinni og segir Ragnheiður að fólk hafi verið spennt að komast í sumarfrí og elta sólina norður eða austur á land. 

Veðurspáin mikið rædd

„Allir voru í stemningu og fólk mikið að ræða um það hvert það ætlaði að fara hvort sem það var norður eða austur. Veðurspáin var einnig mikið rædd. Það var greinilegt að straumurinn væri þangað.“

Mikil röð myndaðist í morgun en sem betur fer leystist  fljótt úr henni.

„Það voru margir sem ætluðu að taka sumarfríið snemma og komu fyrr. Greinilega sumir sem áttu að koma á morgun og þess vegna mynduðust raðir hérna fyrst í morgun. En það leystist fljótt úr því og við settum bara allt í gang og bólusettum á fullu svo þetta blessaðist fljótt,“ segir Ragnheiður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka