Lögbann á lendingar Norðurflugs hjá eldstöðvunum í Geldingadölum flýtir áætlun fyrirtækisins um að hætta að lenda hjá gosinu. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að fleiri flugfélög hafi einnig ákveðið að hætta að lenda hjá gosinu af öryggisástæðum.
Í yfirlýsingunni segir að um nokkurt skeið hafi Norðurflug reynt að semja við landeigendur Hrauns um verð fyrir það að lenda þyrlum hjá gosinu. Ekki hefur náðst samkomulag um það hversu há upphæðin skuli vera en aðila greinir ekki á um það hvort gjald eigi yfir höfuð að vera greitt.
„Vilji okkar til að ganga til samninga hefur samt verið skýr frá upphafi. Það breytir hins vegar samningsstöðu okkar þegar búið er að leggja á lögbann og við þar með nánast þvinguð til samninga,“ segir í yfirlýsingu Norðurflugs.
Fyrirtækið telur að landeigendur hafi farið fram á „algerlega óraunhæfa upphæð“ fyrir lendingar.
„Það er erfitt að ná samningum við aðila sem hótar lögbanni verði ekki gengið að kröfum hans,“ segir í yfirlýsingunni.
Eins og greint var frá í gærmorgun setti sýslumaðurinn á Suðurnesjum lögbann á að Norðurflug haldi áfram að lenda þyrlum sínum í landi Hrauns. Lögmaður landeigenda segir að lögbannið hafi verið lagt á vegna þess að ekki megi lenda flugförum inni á eignarlandi nema með samþykki landeigenda.
„Í viðræðum okkar við landeigendur höfum við kynnt ýmsa möguleika í ljósi þess að engin þjónusta kemur gegn gjaldinu, önnur en leyfi til að lenda á óræktuðu og hingað til ónotuðu landi. Til að mynda viðruðum við þá hugmynd að björgunarsveitir þær sem gættu öryggis ferðamanna, nytu jafnframt góðs af, en fátt var um svör. Hugmyndir landeiganda um gjald er í raun umfram framlegð og því tap af hverri flugferð. Það var auglóslega ekki valkostur að ganga til samninga á þeim forsendum,“ segir í yfirlýsingu Norðurflugs.
Þar segir að landeigendur Hrauns hafi sent einu þyrlufélagi ómótuð samningsdrög. Telur Norðurflug að eðlilegt væri að landeigendur hefðu mótað gjaldtöku sem tæki mið af þekktum lendingargjöldum og hefðu sent öllum þyrlurekendum slíkt upplegg að samningi.
„T.d. hefði verið sanngirnismál að rukka ekkert fyrir þá Íslendinga sem ættu þess ekki kost, sökum fötlunar eða aldurs, að upplifa eldgosið nema með þyrlum eða flugvélum. Slíkt hefði verið sanngirnismál. Það er greinilegt að um stefnubreytingu landeigenda er að ræða, þar sem í upphafi goss, og samhliða kostnaði ríkisins vegna aðgengis, voru gefnar yfirlýsingar um að ekki væri ætlunin að taka gjald fyrir það.“
Í yfirlýsingunni segir að brotið sé blað í aðgengi almennings að gosinu og að landeigendur líti á gosið sem viðburð.
„Norðurflug hefur um nokkurt skeið íhugað að hætta lendingum við eldgosið, af öryggisástæðum. Lendingarsvæði þar sem útsýni yfir gosið er orðið minna en var, og nokkuð hefur borið á að farþegar okkar, sem margir eru komnir yfir miðjan aldur, hafa upplifað óþægindi þegar farið er út úr þyrlunum. Af þeim ástæðum höfum við velt fyrir okkur að hætta að lenda, líkt og önnur félög hafa nú þegar gert. Lögbannið hefur flýtt þeim áætlunum.“