Þátttaka drengja og karla mikilvæg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukin þátttaka drengja og karla og úrbætur í réttarvörslukerfinu eru meðal þeirra atriða sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á þegar hún kynnti skuldbindingar Íslands í átaksverkefninu Kynslóð jafnréttis á ráðstefnu í París í dag.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands.

Ísland er meðal forystuþjóða í verkefninu en markmið þess er að vinna að úrbótum á þeim sviðum þar sem hallar á konur og stúlkur í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

23 skuldbindingar Íslands

Skuldbindingar Íslands eru alls 23 talsins og kveða þær meðal annars á um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi, upprætingu kynbundins ofbeldis með auknum forvörnum, eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við þolendur og gerendur, úrbætur í réttarvörslukerfinu og bætt samráði um aðgerðir gegn ofbeldi.

Verður þá einnig lögð áhersla á þátttöku drengja og karla í forvörnum og aðgerðum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi.

Íslensk stjórnvöld munu einnig auka fjárframlög til stofnana sem vinna í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Verða kjarnaframlög til Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna þrefölduð á næstu tveimur árum en hlutverk þeirra felst meðal annars í því að þjónusta við þolendur kynferðisofbeldis á átakasvæðum. Munu framlög til UN Women til næstu tveggja ára einnig aukast um eina milljón Bandaríkjadala, sem gera rúmar 123 milljónir króna.

„Því miður höfum við séð afturför í jafnréttismálum víða um heim vegna Covid-19 faraldursins. Kynbundið ofbeldi, kynbundin stafræn hatursorðræða og stafrænt kynferðisofbeldi er algengara nú en fyrir faraldurinn. En við sjáum líka sem betur fer kröftuga vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi sem hefur orðið til vegna baráttu kvenna, meðal annars undir merkjum #metoo-hreyfingarinnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Stefnuskjal um skuldbindingar Íslands má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert