Forseti rússneska þingsins vill koma í veg fyrir að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, komist til landsins. Hefur hann rætt málið við forseta Alþingis. Er ástæðan skýrsla þingkonunnar um stöðu mála á Krímskaga.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þórhildur er formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Hún flutti framsögu um skýrsluna í lok júni en þar er þungum áhyggjum af stöðu Krímtatara lýst. Þingið hefur samþykkt skýrslu Þórhildar og mun þingið fara fram á rannsókn á „meintum morðum, mannránum, pyntingum og annarri ómannúðlegri meðferð sem Krímtatarar hafa mátt sæta“.