Gígurinn í Geldingadölum er kominn á fulla ferð, að því er fram kemur í Facebook-færslu eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. Þar segir að virknin undanfarna daga sé túlkuð sem nýr taktur í gosinu.
„Það er líf!“ segir í færslunni sem sett var inn í gærkvöldi.
„Gígurinn er kominn á fulla ferð á ný. Verður að túlka þessa virkni undanfarna daga sem nýjan takt í gosinu. Virknin dettur niður nær alfarið, á milli þess sem hraunflóðin sem æða út úr gígnum verða mun öflugri en á fyrri stigum gossins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gosið sýnir svona lotubundna virkni, en sveiflurnar hafa þó aldrei verið jafn miklar og ýktar og núna.“
Í færslu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands, sem birt var í gærkvöldi, segir að gosið haldi áfram óhindrað. Gígurinn sé kominn í sinn fyrri gír eftir mikla lækkun á yfirborði hraunkvikunnar á fimmtudagskvöld.
Hér má fylgjast með gosinu í beinni. Í einni af þremur myndavélum má sjá að hraunið vellur enn upp úr gígnum.