Hraunið renni undir eldra hrauni

Lengi lifir í glæðum eldgossins.
Lengi lifir í glæðum eldgossins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu íslands, segir engar nýjar vendingar hafa orðið í eldgosinu í Geldingadölum í dag. „Þetta hefur nú svolítið verið sama gamla tuggan,“ segir Sigþrúður.

Þá segir Sigþrúður að óróinn hafi breyst örlítið um klukkan hálffimm í nótt og þá hafi hann dottið aðeins niður og hún hætt að sjá glóð í gígnum sem hún sá alla fyrrinótt úr vefmyndavél.

Nú í kvöld segist hún þó sjá litamun þótt hún sjái ekki glóðina sjálfa. „Það er eitthvað kraumandi þarna ofan í þó svo það komi ekki upp úr,“ segir Sigþrúður.

Kaflaskipti í eldgosinu

„Það var flogið þarna yfir í dag og þá sást ekkert ofan í gígopinu en þeir sáu lengra niður gegnum göt og þar var rauðglóandi svo það var reiknað með að hraunið væri að renna undir eldra hrauninu,“ segir Sigþrúður.

Þá segir Sigþrúður kaflaskipti eiga sér stað í eldgosinu. Gosið detti niður og sumir haldi að það sé búið en síðan taki það sig upp aftur.

Aðspurð segist Sigþrúður ekki halda að kaflaskiptin séu vísbending um að gosinu fari að ljúka en það sé ekkert hægt að segja til um það. Þá gerir hún ráð fyrir að farið verði í mælingaferð á næstu dögum enda vísindaráðsfundur síðar í vikunni.

Jarðskjálfti í Bárðarbungu

Jarðskjálfti varð í Bárðarbungu kl. 01.11 í nótt við norðvestanverðan öskjurimann. Mældist hann 2,9 að stærð. Sigþrúður segir skjálftann ekki merki um neina eldgosavirkni.

„Þetta gerist alltaf annað slagið. Þetta er ekki að segja okkur eitt né neitt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert