Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt tvo menn fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum en sýknað þá af ákæru um peningaþvætti. Þeir voru báðir dæmdir í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða samtals 136,5 milljónir króna í sekt.
Þeir þurfa að sæta 360 daga fangelsi ef sektirnar eru ekki greiddar innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Mennirnir, Knútur Knútsson og Guðmundur Guðmundsson, áttu og ráku fyrirtækið Aflbinding-Járnverktakar ehf. Knútur var framkvæmdastjóri og meðstjórnandi félagsins en Guðmundur stjórnarformaður. Hvorugur þeirra á sakaferil að baki.
Aflbinding-Járnverktakar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2017 en skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf athugun á skattskilum fyrirtækisins í október 2018.
Mennirnir voru ákærðir fyrir að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins fyrir árið 2017 að upphæð rúmlega 37 milljónir króna, fyrir að hafa ekki skilað staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattskýrslu á réttum tíma og fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins árið 2017 og fram í febrúar 2018 að upphæð rúmlega 32 milljónir króna.
Þá voru þeir ákærðir fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað Aflbindingu-Járnverktökum ehf. ávinnings af fyrrgreindum brotum og nýtt ávinninginn í þágu reksturs einkahlutafélagsins.
Þótti ljóst að fjármunirnir hefðu verið nýttir í rekstur félagsins en fyrri brotin voru talin ná yfir þennan lið og voru þeir því sýknaðir af peningaþvætti.
Knútur neitaði sök hvað varðar peningaþvætti en játaði önnur brot og krafðist vægustu refsingar. Guðmundur neitaði sök í öllum ákæruliðum en krafðist vægustu refsingar til vara.
Fram kom í skýrslutöku að þegar rekstur fyrirtækisins fór að þyngjast hefðu ákærðu ákveðið að láta laun og greiðslur til verktaka og birgja ganga fyrir. Allir fjármunir fyrirtækisins hafi farið til greiðslu á þeim hlutum, þar með talin afdregin staðgreiðsla starfsmanna fyrirtækisins og vangoldinn virðisaukaskattur.
Starfsmenn fyrirtækisins voru nærri 50 talsins þegar mest lét. Knúti var gert að greiða 70 milljónir króna í sekt en Guðmundi 66,5 milljónir króna.