Alltaf ákveðið hlutfall bólusettra sem smitast

Kórónuveirusmitið sem greindist utan sóttkvíar á laugardag greindist hjá bólusettum einstakling. Bæði smitin sem greindust utan sóttkvíar á síðustu dögum tengjast landamærunum. Hinir smituðu fóru í skimun fyrir Covid-19 við landamærin, eins og allir þurftu að gera við komuna til landsins fyrir mánaðamót, og greindust þá ekki smitaðir. 

Ekki er vitað hvort sá sem greindist smitaður utan sóttkvíar á fimmtudag hafi verið bólusettur.

„Þótt okkur langi öll að vera 100% bólusett þá er alltaf ákveðinn hluti af bólusettum sem mun greinast með Covid,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, um smitið sem greindist hjá bólusettum einstaklingi.

Reglurnar alltaf í endurskoðun

Frá 1. júlí síðastliðnum hafa þeir sem eru bólusettir gegn Covid-19 og þeir sem hafa sögu um fyrri sýkingu ekki þurft að fara í skimun við komuna til landsins. Spurð hvort smitin sem hafa greinst utan sóttkvíar hjá bólusettum undanfarið sýni að skimun þess hóps sé nauðsynleg áfram segir Hjördís:

„Ég hugsa að það sé alltaf í endurskoðun þótt það sé alls ekki eitthvað sem liggur á borðinu núna. Allar reglur eru alltaf í endurskoðun.“

Innan við tveir tugir sem fara í sóttkví

Smitið sem greindist á fimmtudag greindist hjá einstaklingi sem var á leið úr landi og fór í PCR-próf til þess að geta komist á áfangastað. Seinna smitið greindist hjá einstaklingi sem kom hingað til lands bólusettur, greindist ekki smitaður í skimun við landamærin en fór í skimun nokkrum dögum eftir að hann kom hingað til lands. 

„Þetta hefur einhver samfélagsleg áhrif. Það eru innan við tveir tugir sem eru farnir í sóttkví vegna þessa smits en það er búið að ná utan um það,“ segir Hjördís.

Spurð um stöðuna á smitunum fimm sem greindust innanlands utan sóttkvíar í síðustu heilu viku júnímánaðar segir Hjördís: 

„Það hefur alveg náðst utan um það. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina að það eru alltaf einhverjir sem munu greinast smitaðir í sóttkví þótt þetta sé auðvitað að breytast með fleiri bólusettum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert