Hætta á smiti minni en samt til staðar

Mynd úr safni frá Leifsstöð.
Mynd úr safni frá Leifsstöð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Með vaxandi fjölda ferðamanna sem kemur hingað til lands er fyrirsjáanlegt að einhverjir þeirra kunni að greinast smitaðir af Covid-19 og vera smitandi, jafnvel þótt þeir séu bólusettir, að sögn prófessors í smitsjúkdómum. Tölfræðilega eru meiri líkur á að fólk sem kemur til landsins frá löndum þar sem staða faraldursins er slæm sé smitað en aðrir.

Átta smit hafa greinst utan sóttkvíar innanlands á síðustu tíu dögum. Í mörgum tilvikum hefur verið um bólusetta einstaklinga að ræða. Öll smitin tengjast landamærunum.

„Ég held að þetta sé í samræmi við það sem við gátum reiknað með. Við vitum að bólusetningin dregur mjög úr hættu á veikindum en hún kemur ekki alfarið í veg fyrir smit, þótt hún dragi úr líkunum á smiti. Þeir sem hafa verið að greinast eru alla jafna tiltölulega lítið lasnir. Með vaxandi fjölda ferðamanna er fyrirsjáanlegt að sumir þeirra kunni að vera smitandi og mögulega einkennalausir eða  einkennalitlir,“ segir Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítala.

„Hættan á smiti fer líka svolítið eftir því hversu vel …
„Hættan á smiti fer líka svolítið eftir því hversu vel gengur í löndunum sem fólk kemur frá,“ segir Magnús Gottfreðsson. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Litlar líkur á hópsýkingu á meðal bólusettra

Þau bóluefni sem eru í umferð hérlendis vernda fólk nokkuð vel fyrir þeim afbrigðum kórónuveirunnar sem hafa breitt úr sér á heimsvísu. Magnús segir að nýjustu niðurstöður rannsókna bendi til þess að hættan á að bólusettur einstaklingur smiti aðra sé minni en hættan á að óbólusettur einstaklingur geri slíkt hið sama.

„Hættan er samt til staðar. Hvað hættuna á hópsýkingu varðar snýst mat á henni frekar um hjarðónæmi og dreifingu í samfélaginu þar sem hinn smitaði er. Núna erum við komin með nokkuð góða þekjun á bólusetningum þannig að það er ólíklegt að það komi upp stór hópsýking, en hún gæti þó komið upp meðal þeirra sem eru óbólusettir eins og mjög ungt fólk og börn,“ segir Magnús.

Virðist hafa gengið ágætlega

Frá 1. júlí hafa þeir sem eru bólu­sett­ir gegn Covid-19 og þeir sem hafa sögu um fyrri sýk­ingu ekki þurft að fara í skimun við kom­una til lands­ins. Spurður hvort það hafi verið skynsamleg ákvörðun, í ljósi þess að smit hafa greinst á meðal bólusettra, segir Magnús:  

„Þetta er í raun spurning um bestu ásættanlegu tímasetningu á þessari ákvörðun. Ég veit að það voru margir sem töldu skynsamlegt að halda áfram eitthvað lengur en um leið var ljóst að með þessum mikla fjölda ferðamanna var greiningargetan ekki nægjanleg til þess að sinna þessu verkefni. Það var þá annaðhvort að setja  einhver mörk á fjölda ferðamanna eða láta á þetta reyna og mér sýnist það hafa gengið ágætlega. Hættan á smiti fer líka svolítið eftir því hversu vel gengur í löndunum sem fólk kemur frá. Þ.e.a.s. ef það er mikið um smit í upprunalandi ferðamannsins, jafnvel þótt hann sé bólusettur þá eru tölfræðilega meiri líkur á því að hann beri með sér smit. Þetta er ekki bara spurning um stöðuna hérna hjá okkur heldur líka um stöðuna í heimalandi viðkomandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert