Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing og skýrasti vitnisburður um hlýnandi loftslag hérlendis. Þetta kemur fram í frétt á vef Veðurstofunnar sem byggir á samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs, „Hörfandi jöklar“.
Þar segir að á árinu 2020 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra en nokkrir brattir skriðjöklar gengu svolítið fram. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálfboðaliðum Jöklarannsóknafélags Íslands hopaði Breiðamerkurjökull mest þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón, milli 100 og 250 metra árið 2020.
Afkoma stærstu íslensku jöklanna hefur verið neikvæð síðan 1995 með einni undantekningu, afkoma ársins 2015 var jákvæð í fyrsta sinn í 20 ár. Langjökull, Hofsjökull og Vatnajökull hafa alls tapað um 250 km3 íss síðan 1995 sem er um 7% af heildarrúmmáli þeirra.