Áherslur svipaðar nú og í einkavæðingu fyrir hrun

Dr. Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum og reikningsskilum.
Dr. Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum og reikningsskilum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, segir að áherslum í nýafstöðnu hlutafjárútboði Íslandsbanka svipi til þess þegar bankar í eigu ríkisins voru einkavæddir fyrir hrun. Þetta og fleira skrifar hann í grein sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar, vikurits um viðskipti og efnahagsmál í útgáfu Kjarnans. 

Ásgeir útskýrir fyrir mbl.is honum finnist sem svo að rök hafi skort fyrir því að eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur á þessum tímapunkti og segir hann að verðlagning hafi verið of hastarlega gerð. Rétt eins og fyrir hrun virðist, að sögn Ásgeirs, eins og helstu rökin fyrir sölu eignarhluta ríkisins í viðskiptabönkum séu að „ríkið eigi ekki að eiga banka“. 

„Ég er aðallega að meina að það skortir nýjar röksemdir frá því sem var þegar bankarnir voru einkavæddir fyrir hrun. Þá voru þeir að koma undan eignarhaldi sem stýrt var pólitískt, en núna er verið að einkavæða banka þar sem engin vísbending er um að stýrt sé pólitískt, vegna stofnunar Bankasýslu ríkisins og breytts regluverks meðal annars,“ segir Ásgeir við mbl.is.

Hlutafjárútboð Íslandsbanka er sagt hafa gengið vel.
Hlutafjárútboð Íslandsbanka er sagt hafa gengið vel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir að ekki hefði þurft að fara útboðsleiðina

Þannig segir Ásgeir að mun stöndugri rök hafi verið fyrir því að einkavæða ekki núna Íslandsbanka, a.m.k. ekki strax eða með þeim hætti sem hafður var á. Hann lagði t.d. til í umsögn sinni við Hvítbók fjármálaráðuneytisins árið 2019 að Íslandsbanki yrði færður úr höndum ríkisins með því að selja hann íslenskum lífeyrissjóðum - ekki þyrfti nauðsynlega að fara útboðsleiðina.

Rök fyrir því að bankanum yrði haldi áfram eitthvað lengur í ríkiseigu voru, að sögn Ásgeirs, einna helst þau að bankinn skili ríkissjóði hagnaði og óvissa nú kalli á of mikinn afslátt á verðinu.

Þar að auki segir Ásgeir að athygli veki að eign ríkisins, sem skilaði ríkinu tugmilljarða arði, sé seld á þetta miklu undirverði. Fyrir það, segir hann, að hið opinbera þurfi að svara. Verðlagning verður að taka mið af arðseminni og samanburði við aðra fjárfestingarkosti.

„Þess vegna svipar þessu ferli um of til einkavæðingarinnar um aldamótin, það er verið að drífa þetta af með of miklum afslætti, eins og staðreyndirnar nú sýna. Það er eðlilegt að það sé afsláttur í svona útboði, en ef hann er of mikill að þá eru menn augljóslega búnir að selja á of lágu verði. Þá þarf viðeigandi stofnun og ábyrgðaraðili að svara fyrir hvernig verðið í útboðinu var fundið út.“ segir Ásgeir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka