Elliði segir mál að linni

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Árni Sæberg

Elliði Vignisson, fyrrum bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar og núverandi bæjarstjóri í Ölfusi, segir umræðu á opinberum vettvangi um Vestmannaeyinga hreinan og kláran viðbjóð. 

Í færslu á Facebook vísar Elliði í ummæli sem féllu í útvarpsþættinum Eldi og brennisteini, þar sem þáttastjórnendur, Snæbjörn Brynjarsson og Heiðar Sumarliðason, þuldu upp bloggfærslu þar sem því er haldið fram að í Eyjum hafi á árum áður þótt eðlilegt að „serða blindfullar konur“ eins og það er orðað í færslunni, þá misnota sér ölvun kvenna til kynferðisafbrota. Ítrekað skal hér að ekki var um ummæli Snæbjörns og Heiðars að ræða. Þeir lásu ummælin upp úr bloggfærslu annars manns. 

„Á hinn bóginn verður víst að segja hverja sögu eins og hún gerðist. Það var mjög til siðs í Eyjum að serða blindfullar konur eða konur í ölsvefni sem nú er kallað,“ lásu þeir upp úr færslu manns sem segist hafa búið í Vestmannaeyjum. 

„Það er eins og það sé einhver svona íþrótt innfæddra að nauðga konum sem koma frá meginlandinu,“ sögðu síðan þáttastjórnendur um frásögn mannsins. 

Þessi ummæli segir Elliði sakfellingu án dóms og laga og árás á það sem honum er kært; heimahaga sína, vini og fjölskyldu. Þá segir hann umræðuna skaða umræðu um kynferðislegt ofbeldi. Elliði minnir á að fólk í fjölmiðlum hafi misst störf sín fyrir svipuð ummæli og kallar eftir að stjórnendur fjölmiðla „taki á þessu meini og beiti sér af fullri hörku gegn þessum plagsið“.

Þáttastjórnendur Elds og brennisteins hafa þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir biðjast afsökunar á óvarlegri umfjöllun. Þá benda þeir á að þeir hafi verið að lesa upp frásögn annars manns en ekki verið að lýsa eigin skoðunum eða upplifunum. 

Umfjöllun dv.is hafi slitið orð þeirra úr samhengi og ekki tilgreint að þeir væru að vitna beint í frásögn annars manns. 

Að endingu lofuðu þeir að sýna meiri varkárni og standa sig betur í framtíðinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert