Hvorki Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, né Kristín Arna Jónsdóttir, blaðamaður á Mannlífi, braut gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands (BÍ) með umfjöllun um tvö aðskilin mál á miðlum sínum.
Siðanefnd BÍ komst að þessari niðurstöðu í nýlegum úrskurðum sínum.
Málið gegn Stundinni snerist um umfjöllun í blaðinu í apríl 2021 og snerist annars vegar um myndbirtingu á barni og hins vegar texta þar sem sagði „eignaðist barn með samkynhneigðum vinum sínum“.
Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að í ljósi sameiginlegrar forsjár kærenda og viðmælanda með barninu telji nefndin ekki að brotið hafi verið gegn siðareglum við birtingu mynda af barninu. Nefndin bendir jafnframt á að myndbirting varðar persónuvernd og eru því ekki á verksviði nefndarinnar heldur varða landslög.
Hin kæran, gegn Mannlífi, snerist um viðtal við Björn Matthíasson, föður systra sem sakað höfðu föðurinn um kynferðislega misnotkun í viðtali við Stundina og hafði nafn mannsins komið fram í fjölmiðlum.
Í úrskurði nefndarinnar segir að það sé ekki hlutverk siðanefndar að ákveða hverjir fái að segja sögu sína í viðtölum í fjölmiðlum. „Blaðamaður er þar óháður milligöngumaður sögumanns og lesenda. Nefndin gerir ekki kröfur um að gagnstæðum sjónarmiðum séu gerð skil í slíkum viðtölum,“ segir í úrskurði nefndarinnar sem bendir þó á að í umfjöllun um viðkvæm málefni sé sjaldan of varlega farið.