Betur fór en á á horfðist þegar eldur kom upp í bifreið efst í Vatnsskarði í Austur-Húnavatnssýslu um klukkan átta í kvöld.
Að sögn Ingvars Sigurðssonar, slökkviliðsstjóra hjá brunavörnum Austur-Húnvetninga, varð jeppabifreið snögglega alelda. Farþegar í bílnum voru hjón með barn og tókst þeim að hafa hraðar hendur og yfirgefa bílinn. Engin slys urðu því á fólki. Ingvar segir þó eitt gæludýr hafa drepist í brunanum.
Ingvar segir að málmur í bílnum hafi gert slökkvistarf erfitt og eldur hafi breiðst út í sinu sem slökkviliðið náði fljótt tökum á. Búið er að slökkva allan eld og er jeppinn gjörónýtur eftir.
Töluverðar umferðartafir urðu en að sögn Ingvars er umferð nú komin í eðlilegt horf. Hann biður þó fólk að fara varlega á svæðinu þar sem slitlag sé slæmt vegna mikils hita og því geti vegurinn verið sleipur.