Íslendingar ættu að ferðast þangað sem þeir vilja um helgina að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, en samkvæmt henni má búast við úrkomulitlu og flottu veðri víðast hvar á landinu.
Bjartast og hlýjast verður á Norðaustur- og Austurlandi en þar má búast við að hitinn verði á bilinu 20-25 gráður. Má einnig búast við svipuðu veðri austast á Suðausturlandi, þar sem sólin nær að skína.
Búist er við lítils háttar vætu vestan til á landinu í dag en gert er ráð fyrir að úrkomulítið verði á morgun og að mestu þurrt verði um helgina. Aðeins meiri líkur eru á rigningu á hálendinu en þar gætu komið síðdegis skúrir á stöku stað, sérstaklega á sunnudag.