Distica sér fram á að geyma tugþúsundir skammta af bóluefnum gegn Covid-19 á meðan hlé verður gert á bólusetningum í sumar vegna sumarleyfa heilbrigðisstarfsfólks. Ekki er útlit fyrir að sendingar af bóluefnum verði stöðvaðar enda eitthvað eftir af endurbólusetningum í haust sem og bólusetningu barna á aldrinum 12 til 15 ára sem foreldrar geta óskað eftir.
Síðustu bólusetningar víða um land eru áætlaðar í vikunni. Þá tekur við sumarfrí þar til í ágúst. Distica sér um geymslu og dreifingu bóluefna gegn Covid-19. Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að dreifingin fari í sumarleyfi í þessari viku. Hún gerir ráð fyrir að tugþúsundir skammta verði í geymslu hjá fyrirtækinu meðan á sumarleyfi stendur.
„40.000 skammtar eru væntanlegir frá Pfizer út júlí og einnig eru einhverjar þúsundir skammta að koma frá Moderna. Við geymum þetta þangað til upp úr miðjum ágúst. Þá förum við ef til vill líka að undirbúa öðruvísi dreifingu,“ segir Júlía Rós í samtali við mbl.is.
Ekki er vitað hversu margir skammtar af bóluefnum AstraZeneca og Janssen berast í júlímánuði enda hafa dreifingaráætlanir frá fyrirtækjunum tveimur ekki verið til staðar um nokkurt skeið.
Ákvörðun um það hvernig bólusetningum verður háttað eftir sumarleyfi hefur ekki verið tekin. Það skýrist í ágústmánuði.
Stór hluti þjóðarinnar hefur nú þegar fengið bólusetningu gegn Covid-19, eða um 90% þeirra sem eru fæddir árið 2005 eða fyrr. Því eiga um 30.000 manns eftir að fá bólusetningu í þeim hópi en gera má ráð fyrir að einhver hluti þeirra geti ekki eða vilji ekki þiggja bólusetningu gegn Covid-19. Spurð hvort ákvörðun um að stöðva sendingar af bóluefnum hafi verið tekin, í ljósi þess að flestir hafa nú þegar fengið bólusetningu gegn Covid-19, segir Júlía að slíkt hafi ekki verið ákveðið.
„Það verður náttúrlega farið í bólusetningu 12 til 15 ára barna í haust þannig að þetta bóluefni verður líklega notað í það. Svo eru einhver 10% þjóðarinnar sem eiga eftir að fá bólusetningu þannig að kannski kemur eitthvað af þeim í bólusetningu.“