Urður Egilsdóttir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að þeir sem greindust smitaðir í gær séu Íslendingar sem líklega hafi smitast af ferðamönnum. Í gær greindust tvö Covid-19-smit innanlands, báðir aðilar voru utan sóttkvíar og bólusettir.
Bankastræti club tilkynnti á Instagram-síðu sinni í dag að upp hefði komið smit á skemmtanalífinu um helgina sem meðal annars hafi borist inn fyrir þeirra dyr. Hvetur staðurinn því gesti helgarinnar til að fara í sýnatöku.
„Við höfum ekki verið með nein innanlandssmit í mjög langan tíma og við vitum að veiran er að koma með ferðamönnum, þó að það sé mjög sjaldæft,“ segir Þórólfur og bætir við að raðgreining á smitunum eigi eftir að sýna betur hvers eðlis þau séu. Sú greining mun taka nokkra daga.
Á fólk sem vinnur í ferðaþjónustu frekar á hættu að smitast?
„Ég held að smithættan sé sennilega meiri frá Íslendingum sem eru að koma heim og hafa verið að ferðast erlendis, bólusettir eða óbólusettir, og geta því borið með sér veiruna. Þeirra umgangur hér innanlands er miklu meiri við fleiri. Við höfum séð það að fólk fer í veislur og hittir marga, það getur smitað út frá sér.“