Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir það slá sig verst í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn hans um kostnað við byggingu nýs Landspítala að undirbúningur standi nú yfir að áætlanagerð fyrir verkefnið í heild sinni.
Henni verði ekki lokið fyrir undir lok árs 2022 því enn eigi eftir að taka ákvarðanir um hvað af eldra húsnæði spítalans verður nýtt og hvaða breytingar þarf að gera á því.
Hann segir auk þess svarið staðfesta efasemdir sínar um staðsetningu spítalans og kostnað við uppbyggingu hans í þeim þrengslum sem séu við Hringbraut. Ljóst sé að ýmis aukakostnaður hafi fallið til.
Fram kom í frétt Morgunblaðsins í dag að áætlanir um heildarkostnað við nýbyggingar Landspítalans hefðu hækkað um 16,3 milljarða frá 2017. Ástæðan er aukið umfang verkefnisins, meðal annars vegna stækkunar meðferðarkjarna spítalans.
„Óvissan er greinilega enn mjög mikil,“ segir Bergþór.
„Stjórn Nýja Landspítalans ohf. í samráði við stjórnvöld þarf að klára þær ákvarðanir og þá greiningu sem þarf að eiga sér stað svo menn sjái til lands með heildarumfang verkefnisins. Það er ótrúleg staða að menn séu núna, um mitt ár 2021, að velta því fyrir sér hvaða húsnæði eigi að nota af því sem eldra er og það þarfnast auðvitað verulegra lagfæringa, við getum vísað þar í fréttir af myglu og annað sem virðist vera grasserandi allt um kring þarna.
Það er ótækt fyrir þingið að þessar breytingar séu að meginhluta til að eiga sér stað inni í einhverjum lokuðum kassa opinbers hlutafélags, í stað þess að hún eigi sér stað í þinginu.“
Hann segir blasa við að ákvarðanir og áætlanir hafi ekki verið nógu ítarlega unnar á upphafsstigum verkefnisins.
Það veki athygli að tekin hafi verið ákvörðun um að stækka meðferðakjarna spítalans um þriðjung frá fyrri plönum, sem virðast þá hafa verið takmarkað unnin.