Hólmfríður María Ragnhildardóttir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur fulla ástæðu til að ráðast í rannsókn á starfsemi vöggustofa í Reykjavíkurborg eins og borgarstjóri hefur boðað. Mun hún beita sér fyrir því að þingið aðstoði í þeim málum.
Þann 7. júlí síðastliðinn tilkynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að borgin hygðist hefja úttekt á vöggustofum. Sagði Dagur þá að rannsóknin yrði mögulega háð því að Alþingi veitti rannsóknarteyminu lagaheimild til að hægt yrði að rannsaka málið til fullnustu, enda eru sjúkraskýrslur og önnur persónugreinanleg gögn nauðsynleg í framgangi málsins.
Katrín segir borgina hafa aðra stöðu en þingið og framkvæmdavaldið í því og þar af leiðandi mikilvægt að samstarf ríki milli þeirra tveggja við rannsókn málsins.
„Borgarstjóri hefur rætt það við mig að það kunni að þurfa einhvers konar lagaheimildir til þess að slík rannsókn gæti orðið fullnægjandi og ég mun að sjálfsögðu reyna að greiða veg þess sem þörf er á.“
Stefnir borgarstjóri á að rannsaka Vöggustofuna að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Fimmmenningarnir Árni H. Kristjánsson, Fjölnir G. Bragason, Hrafn Jökulsson, Tómas V. Albertsson og Viðar Eggertsson hafa hvatt til þess að starfsemi vöggustofanna verði rannsökuð.
Sendu þeir greinargerð til borgarstjórnar þar sem greint var frá ómannúðlegum starfsháttum sem voru þar við lýði. Kom meðal annars fram í greinargerðinni að börn hefðu verið látin liggja afskiptalaus í rúmum sínum og starfsfólki bannað að taka þau upp að nauðsynjalausu. Fengu foreldrar ekki að heimsækja börn sín nema á fyrirfram ákveðnum tímum og börnin voru þá höfð bak við glerskilrúm.