Aðgerðir innanlands ekki útilokaðar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að aðgerðir innanlands séu ekki endilega …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að aðgerðir innanlands séu ekki endilega liðin tíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vildi ekki tjá sig um innihald minnisblaðsins sem ríkistjórnin fundaði um, þegar blaðamaður náði tali af honum í hádeginu. Nú liggur fyrir að bólusettir ferðamenn munu koma til með að þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komu til landsins.  

Eins og fram hefur komið greindust sextán manns smitaðir með veiruna í gær. Ekki liggur fyrir hvert hlutfall bólusettra er í þeim hópi, en Þórólfur segist gera ráð fyrir því að stærstur hluti hópsins sé bólusettur.

Hann segir erfitt að meta stöðuna að svo stöddu. Margt geti spilað inn í, svo sem hvaða afbrigði geri sig mest gildandi og hvort fólk sé að veikjast alvarlega.

„Það að bólusetningin sé með 90% virkni gegn alvarlegu smiti segir okkur að langstærstur hluti þeirra sem smitast eru með væg einkenni. En þetta gæti auðvitað breyst, við vitum til dæmis ekkert hvað gerist ef að smit fer að berast inn í viðkvæma hópa,“ segir Þórólfur.

Gætum þurft að grípa til aðgerða innanlands

Spurður hvort sú sviðmynd, að grípa þurfi að nýju til takmarkana innanlands, sé möguleg segir hann:

„Já það gæti gerst. Ef við sjáum mikið af alvarlegum veikindum og eitthvað sem kemur okkur á óvart, þá er bara eitt í stöðunni og það er að grípa til þeirra aðgerða sem við höfum gert áður og vitum að virka.“

Hann bendir einnig á að þegar að alvarleg veikindi fara að bera á sér í auknum mæli, þá sé almennt langt liðið á bylgjuna og þær aðgerðir sem gripið væri til, því ekki jafn árangursríkar. Þetta sé því ávallt spurning um hvenær eigi að grípa til aðgerða og hvenær samfélagið sé tilbúið að hlíta þeim aðgerðum sem settar eru.

En hversu margt fólk þarf að veikjast alvarlega svo hægt sé að réttlæta aðgerðir innanlands?

„Það er engin ákveðin tala sem segir okkur það. Við verðum bara að meta þróunina í þessu hverju sinni. Þetta er það sem við erum að reyna að fylgjast með í samstarfi við Landspítalann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert