Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir biður þá sem eru bólusettir gegn Covid-19 eða eru með sögu um fyrri Covid-19-sýkingu og eru búsettir á Íslandi, eða hafa hér tengslanet, að fara í sýnatöku við komuna hingað til lands þrátt fyrir neikvætt PCR- eða antigen-próf, sem tekið var fyrir brottför.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef embættis landlæknis.
Þar segir að útbreiðsla kórónuveirunnar í íslensku samfélagi hafi aukist síðustu daga og ný bylgja faraldursins sé farin af stað. Þá hefur komið í ljós að smitaðir einstaklingar sem hingað koma og hafa víðtækt tengslanet hér á landi eru líklegri til að smita aðra en þeir sem lítið tengslanet hafa. Sóttvarnalæknir segir öfluga skimun á landamærum mikilvægt tæki til að hindra dreifingu veirunnar yfir landamærin. Það er forsenda þess að hafa innanlandstakmarkanir í lágmarki.
„Sýnatöku er hægt að panta á heilsuvera.is og fá á landamærum í Keflavík eða eins fljótt og auðið er eftir komuna til Íslands, í Reykjavík á Suðurlandsbraut 34 eða hjá heilsugæslunni utan höfuðborgarsvæðis. Meðan beðið er niðurstöðu skal sérstaklega huga að smitgát,“ segir í tilkynningunni.
„Þannig eru ferðamenn einnig beðnir að halda sig sem mest til hlés fyrstu dagana eftir heimkomu, heimsækja ekki viðkvæma einstaklinga, eins og þá sem hafa undirliggjandi sjúkdóma, aldraða eða sjúklinga á spítölum, og fara í sýnatöku án tafar finni þeir fyrir einkennum sem bent geta til Covid-19.“