Mesti fjöldi smita á árinu

Röð í skimun við Suður­lands­braut 34.
Röð í skimun við Suður­lands­braut 34. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls greindust 38 með kórónuveiruna innanlands í gær. Fleiri hafa ekki greinst með veiruna á einum degi það sem af er þessu ári. Næstmestur fjöldi nýrra smita greindist innanlands 17. apríl, alls 27. 

Síðast greindust fleiri en í gær þann 30. október á síðasta ári – alls 56. Þá voru í gildi fremur harðar takmarkanir vegna veirunnar.

Enginn á sjúkrahúsi

Engar takmarkanir eru nú í gildi innanlands, en í gær ákvað ríkisstjórnin að krefja bólusetta ferðamenn um neikvætt PCR-próf eða mótefnahraðpróf frá og með næstu viku. 

Enginn er á sjúkrahúsi haldinn sjúkdómnum, en gögn frá m.a. Bretlandi, þar sem bólusetning hefur gengið vel, benda til þess að dauðsföll séu mun færri nú en í fyrri bylgjum þar í landi, þrátt fyrir hratt vaxandi tíðni smita.

Meðaltal daglegra dauðsfalla af völdum Covid-19 þar í landi stendur í um 40, samanborið við um 654 hinn 26. desember. Tæplega 64% fullorðinna Breta eru fullbólusett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka