Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist að vonum vera óhress með Covid-19 tölurnar sem birtar voru í morgun og segir hlutina stefna í veldisvöxt.
Alls greindust 38 innanlandsmit í gær, þar af voru 9 í sóttkví. Í fyrradag voru innanlandssmitin aftur á móti 11 talsins.
„Þetta sýnir að það er komin töluvert mikil dreifing út í samfélagið og þetta stefnir í veldisvöxt,“ segir Þórólfur og bætir við að veiran sé að greinast í fleiri landshlutum en á Reykjavíkursvæðinu.
Flestir sem hafa verið að greinast eru fullbólusettir en hluti er það ekki alveg. „Þetta er fólk sem er kannski ekki mjög veikt. Sumir eru einkennalitlir og margir eru með þessi hefðbundnu einkenni; hita, kvef og beinverki og missa lyktar- og bragðskyn, en enginn hefur lagst inn á sjúkrahús,“ segir hann en meðalaldur fólksins er um 30 ár.
Ef veiran dreifist til viðkvæmra hópa er óljóst hvernig þeim mun reiða af, bætir hann við, og segir lítinn hluta af fólkinu sem greindist í gær tengjast landamærunum og vera nýkomið frá útlöndum. Innanlandssmit eru ríkjandi þáttur. „Smitin eru komin inn og eru búin að dreifa sér innanlands.“
Spurður hvort hann vilji grípa til aðgerða innanlands til að stemma stigu við þróuninni segir hann að bundnar hafi verið vonir við að bólusetningarnar hjálpi til við að halda veirunni í skefjum. Hann bendir á tölur frá Ísrael um að um 40% af þeim sem eru bólusettir geti smitast af veirunni og fengið væg einkenni. Bóluefnin eru 90 til 95% virk í því að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Ennþá geti hópur samt veikst alvarlega.
„Ef útbreiðslan verður mjög mikil og það verða mjög margir sem smitast, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki, þá getum við fengið mjög marga með alvarleg einkenni. Það er það sem við erum hrædd við og að það muni fljótt geta valdið miklu álagi á heilbrigðiskerfið, fyrir utan alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem í því lenda,“ greinir Þórólfur frá og segist vera að skoða hvort hann þurfi að koma með tillögur um takmarkanir innanlands.
Hann segir að margir sem hafa greinst smitaðir hafi verið á ferðalagi og því sé um hreyfanlegan hóp að ræða. „Það er áhyggjuefni þegar allar þessar stóru hátíðir fara að byrja. Þá getur þetta orðið mjög erfitt og þungt og rakningin snúin.“ Hann hvetur fólk til að hlaða rakningarappinu í síma sína og gera vinnu rakningarteymisins þar með auðveldari, en fleira fólk hefur verið kallað inn í teymið til að bregðast við stöðu mála, enda álagið aukist til muna.
Spurður hvort það komi til greina að aflýsa hátíðum kveðst hann ekki vita það. „Það fer eftir því hvenær minnisblöð frá mér koma og hvort ráðamenn fara eftir tillögum sem þar verða.“
Spurður út í óeiningu hjá stjórnvöldum um aðgerðirnar á landamærunum sem voru tilkynntar í gær segir hann það vera miður ef óeining sé uppi. Hann þurfi samt sem áður að leggja fram sitt faglega mat og sínar tillögur. Heilbrigðisráðherra þurfi síðan að ákveða hvort þeim verður hleypt í framkvæmd.
„Það er ekki gott fyrir viðbrögðin ef það er mikil óeining um það innan stjórnkerfisins.“