Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mun í dag senda heilbrigðisráðherra minnisblað þar sem hann leggur til sóttvarnaaðgerðir innanlands til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur sagðist ekki vera tilbúinn til að greina frá því hvaða aðgerðir hann leggi til.
Þórólfur sagði að virkni bóluefna sé minni en talið var, þó að bóluefnin séu talin hafa um 90% virkni gegn alvarlegum veikindum.
Þórólfur sagði að einn væri nú á sjúkrahúsi með Covid-19 en sex séu í nánu eftirliti Covid-göngudeildar og gætu þurft á innlögn að halda á næstu dögum.
78 smit greindust innanlands í gær og voru 19 í sóttkví við greiningu. Af þeim sem greindust voru 52 fullbólusettir. Eru smittölur gærdagsins með þeim hæstu sem greinst hafa á einum sólarhring frá því faraldurinn hófst.