Esther Hallsdóttir
Ríkisstjórnin mun koma saman á Egilsstöðum kl. 16 í dag til að ræða tillögur sóttvarnalæknis um takmarkanir innanlands vegna kórónuveirufaraldursins.
Þetta staðfesti Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í samtali við mbl.is.
Hann segir nokkra ráðherra vera stadda fyrir norðan og austan en að aðrir muni fljúga austur.
Hann gerir ráð fyrir að allir ráðherrar verði á staðnum nema Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem eru staddir erlendis, en hefur þó ekki fengið staðfesta mætingu frá öllum.
Fjórir munu þurfa að fljúga austur ef allir ráðherrar mæta á fundinn.
Þórólfur greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í gær að hann hygðist skila inn minnisblaði til heilbrigðisráðherra með tillögum að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar innanlands.
Ríkisstjórnin var ekki einhuga um aðgerðir á landamærunum sem kynntar voru á mánudag.
Veðrið fyrir austan og norðan hefur verið einstaklega gott undanfarna daga og vikur og hafa margir landsmenn dvalið þar í sumarfríum sínum.