„Skarpara“ að setja á tveggja metra reglu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveirusmitum fór að fjölga í samfélaginu eftir að nándartakmörk voru færð úr tveimur metrum í einn í september í fyrra, að sögn sóttvarnalæknis sem hefði viljað sjá ríkisstjórnina grípa til tveggja metra nándartakmarka frekar en eins metra. Hann segir allt mögulegt í framhaldinu, harðari, sömu eða vægari aðgerðir. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til við ríkisstjórnina að gripið yrði til tveggja metra nándartakmarka til þess að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins innanlands. Við því varð ríkisstjórnin ekki og kom á eins metra reglu sem tekur gildi ásamt öðrum sóttvarnaaðgerðum á miðnætti. 

„Ég held að það hefði verið skarpara að taka upp tveggja metra regluna. Við höfum notað hana lengst af í þessum faraldri. Við slökuðum einu sinni á, úr tveimur metrum niður í einn metra. Skömmu síðar fór [smit]kúrvan upp. Hvort það er samhengi þar á milli get ég ekki fullyrt um en stjórnvöld ákveða hvernig endanleg útfærsla á þessu er, það er ekkert við því að segja svo við vinnum bara með það og sjáum hverju það skilar,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. 

Tveggja metra reglan hefur gefist vel að mati sóttvarnalæknis.
Tveggja metra reglan hefur gefist vel að mati sóttvarnalæknis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Telur að viðnámsþróttur sé til staðar vegna bólusetningar

Reglurnar sem taka gildi á miðnætti eru m.a. 200 manna samkomutakmörk og grímuskylda við vissar aðstæður, t.a.m. í almenningssamgöngum, innanlandsflugi og verslunum. 75% af hámarksfjölda gesta mega mæta í sundlaugar og líkamsræktarstöðvar. 

Nú getur flest starfsemi farið fram með eðlilegum hætti þrátt fyrir takmarkanir, nema hvað varðar skemmtanalífið og útihátíðir. Miða reglurnar sem taka gildi á miðnætti helst að því að takmarka þetta tvennt?

„Þessar reglur voru settar til þess að koma takmörkunum á samfélagið eins og gert var áður. Það var ekki gripið til jafn harðra aðgerða vegna þess að ég tel að það sé viðnámsþróttur vegna bólusetningarinnar og það muni hjálpa okkur líka. Það verður bara að skýrast á næstunni. Það getur vel verið að ef við sjáum ekki árangur af þessu eða við förum að sjá einhverjar alvarlegri afleiðingar að það þurfi að koma fram tillögur um einhverjar hertari aðgerðir, ég vona ekki en við verðum að sjá til,“ segir Þórólfur. 

Verslunarmannahelgin hefði getað endað illa

Þjóðhátíð hefur verið frestað vegna aðgerðanna. Spurður hvort mikilvægt hafi þótt að grípa til aðgerða fyrir Þjóðhátíð, þar sem Þórólfur hefur áður sagt að hundruð eða þúsundir smita hefðu getað orðið til, segir hann:

„Ég held að á öllum þessum útihátíðum, þar sem fólk kemur saman í hundraða eða þúsunda vís, þá sé bara mjög mikil hætta á frekari útbreiðslu. Eftir svoleiðis helgi, verslunarmannahelgi á landsvísu, hefðum við getað séð hundruð eða þúsundir smita með alvarlegum afleiðingum.“

Gætu þurft að herða, já eða létta á aðgerðum

Hann vill ekki tjá sig um þá hugmynd þjóðhátíðarnefndar að fresta Þjóðhátíð um nokkra daga, þar til takmarkanirnar falla úr gildi. Þórólfur segir ekki hægt að spá fyrir um hvort slíkt gangi eins og staðan er núna. 

„Ef ástandið versnar mikið og við stöndum frammi fyrir meiri ógn þá gætum við þurft að herða enn frekar. Við gætum staðið frammi fyrir því að ef þessar aðgerðir skila nokkuð góðum árangri þá gætum við haldið þeim áfram eða ef þetta skilar mjög góðum árangri, hvort við viljum slaka eitthvað á. Það verður bara að koma í ljós og ég get ekkert tjáð mig um það á þessari stundu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka