Heilbrigðisráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu á vef stjórnarráðsins þar sem leiðréttur er misskilningur sem ráðuneytið segir hafa gætt varðandi grímuskyldu.
Með nýjum sóttvarnatakmörkunum innanlands tók grímuskylda gildi á ný á miðnætti, í einhverjum tilfellum. Sem fyrr eru börn fædd eftir árið 2006 undanþegin grímuskyldu.
Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að tryggja eins metra reglu eða þar sem loftræsting er ekki talin fullnægjandi.
Misskilnings um grímuskyldu hefur þá aðallega gætt í verslunum, þar sem oftast nær er unnt að virða eins metra reglu og loftræsta með fullnægjandi hætti. Einhverjir verslunarrekendur hafa gert það að skilyrði að viðskiptavinir beri grímur.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir:
„Tryggja skal að minnsta kosti 1 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, til að mynda á samkomum, vinnustöðum, verslunum, söfnum og í allri annarri starfsemi, hvort sem er innan- eða utandyra.
Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að viðhalda 1 metra nálægðartakmörkunum og þar sem húsnæði er illa loftræst. Þetta á til að mynda við um heilbrigðisþjónustu, verslanir, söfn, innanlandsflug og -ferjur, almenningssamgöngur, leigubifreiðar og hópbifreiðar,í verklegu ökunámi og flugnámi, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa, sólbaðsstofa og í annarri sambærilegri starfsemi.
Grímuskylda er í gildi fyrir áhorfendur á íþróttaviðburðum og sviðslistaviðburðum á borð við leiksýningar, bíósýningar og tónleika.“
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifar í færslu á Facebook-síðu sinni að stjórnvöld hafi ekki lagt nægilega mikið kapp í að vernda framlínustarfsfólk í verslunum. Hann vill að fólk taki upp tveggja metra reglu í verslunum upp á sitt einsdæmi og beri grímu til þess að vernda starfsfólk verslana.
Í gildi eru, eins og fyrr segir, eins metra regla og grímuskylda þar sem ekki er unnt að halda eins metra reglu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafur bent á að betra væri að tveggja metra nándarmörk væru í gildi en eins metra. Þórólfur lagði enda til við heilbrigðisráðherra að tveggja metra regla yrði sett á, en niðurstaðan varð eins metra regla.