Framboðslisti Miðflokksins í Reykjavík suður var samþykktur á félagsfundi Miðflokksfélags Reykjavíkur í kvöld. Listinn fékk samþykki 74% atkvæða. Fjóla Hrund Björnsdóttir leiðir listann. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Í öðru sæti listans er Danith Chan lögfræðingur. Snorri Þorvaldsson eldri borgari skipar þriðja sæti listans. Tveir framkvæmdastjórar fylgja svo í kjölfarið, Ómar Már Jónsson í fjórða og Anna Björg Hjartardóttir í fimmta. Patience Adjahoe Karlsson kennari er svo í sjötta sæti listans.
Þá er Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi og fyrrverandi þingmaður í heiðurssæti listans, því tuttugasta og öðru. Listann má sjá í heild sinni hér neðar.
Átök hafa einkennt uppstillingar á listum Miðflokksins fyrir komandi kosningar, en ákall hefur verið meðal flokksmanna um að jafna kynjahlutföllin á listum flokksins.
Líkt og greint var frá á dögunum var tillaga uppstillingarnefndarinnar felld á félagsfundi miðflokksmanna nú á dögunum. Fjölmenntu stuðningsmenn Þorsteins Sæmundssonar á fundinn og felldu listann en tillaga nefndarinnar var á þann veg að Fjóla Hrund skyldi leiða listann, en ekki sitjandi oddviti, Þorsteinn Sæmundsson.
Boðað var til oddvitakjörs í kjördæminu og skákaði Fjóla Þorsteini í kjörinu með 58% atkvæða gegn 42% Þorsteins. Nú hefur eins og áður kom fram listinn verið samþykktur og því Fjóla Hrund formlega orðinn oddviti flokksins í Reykjavík suður. Hún hefur undanfarin þrjú ár gegnt starfi framkvæmdastjóra þingflokks Miðflokksins.
Listinn í heild sinni: