Sérfræðingur á sóttvarnasviði Embættis landslæknis segir að mælt verði með bólusetningu barna ef ekki er hægt að ráða við kórónuveirufaraldurinn með öðrum hætti. Hún bendir á að hópurinn sé í tiltölulega lítilli hættu á að veikjast alvarlega af Covid-19 en virðist vera í meiri hættu á ákveðnum aukaverkunum af völdum mRNA-bóluefna en eldra fólk.
„Ef við erum að bólusetja hrausta einstaklinga sem við teljum að fari ekki illa út úr Covid þá þurfum við að vera mjög meðvituð um það að við séum að taka áhættuna á því að þau lendi mögulega á sjúkrahúsi vegna aukaverkananna. Þó að þær gangi yfir af sjálfu sér, eða með tiltölulega einfaldri meðferð og hvíld, þá er það samt ekki sjálfsagt mál að fara út í slíkt í stórum stíl,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis.
Tvenns konar aukaverkanir af mRNA-bóluefnum, þ.m.t. bóluefnum Pfizer og Moderna, gegn Covid-19 virðast vera algengari á meðal fólks undir þrítugu, þar á meðal unglinga, en eldra fólks. Aukaverkanirnar eru þó sjaldgæfar. Bæði bóluefnin hafa verið samþykkt til notkunar fyrir börn frá 12 ára aldri.
„Það geta komið bólgur og vökvasöfnun í gollurshúsið, sem er pokinn utan um hjartað, og eins í hjartavöðvann sjálfann. Þetta með hjartavöðvann virðist sem betur fer vera töluvert sjaldgæfara. Gollurshúsbólga gengur yfirleitt yfir af sjálfu sér en hún er svolítið ógnvekjandi. Einkennin eru mæði, brjóstverkur og ýmislegt sem getur valdið miklum ótta og óþægindum,“ segir Kamilla.
Því hefur enn ekki verið tekin ákvörðun um það hvort mælt verði með bólusetningu barna en sem stendur geta foreldrar óskað eftir slíkri bólusetningu fyrir 12 til 15 ára börn. Í þeim bólusetningum er bóluefni Pfizer notað.
Kamilla segir að staðan á faraldrinum muni ráða því hvort mælt verði með bólusetningu barna í haust.
„Við munum mæla með bólusetningu barna ef það ræðst ekki við þessa bylgju með einhverjum öðrum hætti. Ef það er hægt að verja þennan aldurshóp, sem er í lítilli hættu á Covid-sýkingu fyrir, með öðrum aðferðum sem við vitum að eru hættuminni, það er t.d. á heildina litið ekki mjög áhættusamt að takmarka samgang þótt það geti haft áhrif á andlega líðan og þess háttar, þá grípum við til þeirra. Við rjúkum ekki af stað í eitthvað sem við vitum að getur verið áhættusamt nema hafa mjög ríka ástæðu til.“
Kamilla segir að að auki séu praktísk atriði sem þarf að leysa áður en farið er af stað með bólusetningu barna.
„Það er í rauninni heilsugæslunnar að skoða hvernig er praktískast að framkvæma slíkt. Það verður ekki farið í neinar Laugardalshallarbólusetningar með börn sem þurfa meiri stuðning og eru kannski ekki sjálf að óska eftir bólusetningum heldur foreldrarnir að ýta þeim í þetta. Það þarf að tækla það á annan hátt en þessar fjöldabólusetningar. Mögulega verður það gert í gegnum skólaheilsugæslurnar en það er þó ekki víst,“ segir Kamilla.
Þótt bæði mRNA-bóluefnin sem eru í notkun hér á landi hafi verið samþykkt fyrir börn frá 12 ára aldri segir Kamilla ólíklegt að bóluefni Moderna verði notað í slíka bólusetningu. Það er vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa gert stóran samning um bóluefni við Pfizer og minna kemur til landsins af bóluefni Moderna.